Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Ferðaþjónusta. Lagaheimild. Meinbugir á lögum. Skyldubundið mat.

(Mál nr. 9160/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála en með úrskurðinum var staðfest ákvörðun sveitarfélagsins X um að synja A um ferðaþjónustu fatlaðra til að njóta tómstunda á lögheimili sínu. Sveitarfélagið X hafði sett reglur um ferðaþjónustu fatlaðra þar sem þjónustan með tilliti til tómstunda var bundin við akstur í „skipulagt tómstundarstarf“. A, sem var lömuð fyrir neðan mitti, sótti um ferðaþjónustu frá því hjúkrunarheimili sem hún dvaldi á til lögheimilis síns. Sveitarfélagið X synjaði umsókn hennar en benti á að henni stæði til boða ferðaþjónusta í tiltekið félagsstarf eldri borgara.
Umboðsmaður taldi að afmörkun á þjónustu samkvæmt reglum sveitarfélagsins um ferðaþjónustu fatlaðs fólks væri almennt til þess fallin að ganga gegn því markmiði laga um málefni fatlaðs fólks að þjónustan skyldi taka mið af þörfum hvers og eins. Þessi annmarki hefði birst með skýrum hætti í tilviki A þar sem henni hefði eingöngu staðið til boða ferðaþjónusta í tengslum við tiltekið félagsstarf eldri borgara. Þar af leiðandi hefði ekki reynt á hvernig koma mætti með öðrum hætti til móts við þarfir hennar. Var það því niðurstaða umboðsmanns reglur X hefðu ekki verið fallnar til að ná því markmiði að fötluðu fólki væri kleift að njóta tómstunda í skilningi laganna. Hann taldi því að reglurnar hefðu þrengt um of rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu.
Niðurstaða umboðsmanns var því sú að synjun X á umsókn A um ferðaþjónustu hefði ekki byggst á viðhlítandi lagagrundvelli. Þar af leiðandi var það jafnframt niðurstaða hans að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður taldi tilefni til að vekja athygli félags- og jafnréttismálaráðherra á framsetningu ákvæðis í lögum um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um ferðaþjónustu og að betur kynni að fara á því að afmarka þann rétt með nánari og skýrari hætti í lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum með viðhlítandi lagastoð í stað þess að gera það að mestu leyti í leiðbeinandi reglum. Þá beindi hann þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.