Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Kosningar.

(Mál nr. 8807/2016)

A leitaði til mín með kvörtun yfir því að vegna búsetu hans erlendis þyrfti hann að sækja um að vera tekinn á kjörskrá á fjögurra ára fresti.

Ég lauk málinu með bréfi, dags. 23. febrúar 2016. Þar rakti ég að samkvæmt ákvæðum laga, einkum laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, eigi íslenskur ríkisborgari, sem náð hafi 18 ára aldri og átt lögheimili hér á landi, kosningarétt í átta ár frá því að hann flutti lögheimili af landinu. Eftir þann tíma sé kosningarétturinn hins vegar háður því að viðkomandi hafi sótt um hann sérstaklega eftir nánari reglum og gildi ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá í fjögur ár. Ég tók fram að kvörtunin beindist ekki að ákvörðun eða athöfn sem félli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis heldur að efni löggjafar og það væri ekki á verksviði hans að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Taldi ég því ekki skilyrði að lögum til að ég gæti tekið kvörtun A til meðferðar og lauk athugun minni á málinu.