Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Félög.

(Mál nr. 8808/2016)

A leitaði til mín með kvörtun yfir því að vera ekki á kjörskrá Bændasamtaka Íslands fyrir kosningar um búvörusamninga.

Ég lauk málinu með bréfi, dags. 15. mars 2016. Þar benti ég á að Bændasamtök Íslands væru heildarsamtök íslenskra bænda, en aðild að samtökunum geti samkvæmt samþykktum þeirra átt einstaklingar og félög einstaklinga og lögaðila sem standa að búrekstri. Samtökin skuli vera málsvari bænda og vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði. Ég tók fram að Bændasamtök Íslands væru því félagasamtök framleiðenda búvara og þar með einkaaðili en ekki hluti af þeirri stjórnsýslu sem eftirlit umboðsmanns Alþingis taki til nema að því marki sem samtökunum kunni að hafa verið með lögum falið að taka stjórnvaldsákvarðanir. Ég taldi svo ekki hafa verið í þessu tilviki og lauk því meðferð minni á málinu.