Opinberir starfsmenn. Dýralæknar. Krafa um vald á íslensku. Lögmætisreglan. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

(Mál nr. 9510/2017)

Dýralæknafélag Íslands kvartaði yfir því að undanfarin ár hefði Matvælastofnun ráðið erlenda dýralækna í eftirlitsstörf án þess að þeir hefðu vald á íslenskri tungu. Skýrslur og athugasemdir þeirra til eftirlitsskyldra aðila og annarra dýralækna hefðu því verið á ensku.  Félagið taldi að slíkt væri ekki í samræmi við þá kröfu í lögum að dýralæknar sem störfuðu hér á landi í opinberri þjónustu skyldu hafa vald á íslenskri tungu. Af þessum sökum hafði félagið beint erindum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og skorað á það að bregðast við.

Umboðsmaður taldi að það væri ekki í samræmi við lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr að Matvælastofnun réði til eftirlitsstarfa dýralækna sem hefðu ekki vald á íslenskri tungu þar sem í lögunum kæmi sérstaklega fram að dýralæknar í opinberri þjónustu skyldu hafa vald á íslenskri tungu. Þá taldi hann það ekki í samræmi við lög að samskipti þeirra á vegum stofnunarinnar við eftirlitsskylda aðila og eftir atvikum aðra væru að hluta til á ensku, í þeim tilvikum sem það væri ekki í þágu þeirra sem eftirlit eða önnur starfsemi stofnunarinnar lyti að. Umboðsmaður vakti athygli á að athugun hans hefði ekki tekið til þess hvort og þá hvaða þýðingu lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins kynnu að hafa, enda hefðu stjórnvöld ekki byggt á því að tiltekin ákvæði ættu við um þau eftirlitsstörf dýralækna sem athugunin hefði beinst að.

Jafnframt komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að viðbrögð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við erindum Dýralæknafélags Íslands hefðu ekki verið fullnægjandi og að sá skortur sem hefði orðið á að það brygðist nægjanlega við því að stofnunin starfaði í andstöðu við lög hefði ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíldu á ráðherra samkvæmt yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum hans gagnvart stofnuninni. Fékk umboðsmaður ekki annað ráðið en að það væri afstaða stjórnvalda í málinu að viðvarandi og almennur vandi ylli því að Matvælastofnun starfaði ekki í samræmi við lögmælt starfsskilyrði stofnunarinnar og að ráðuneytið hefði ekki gripið til raunhæfra og virkra úrræða til að ráða bót á því. Umboðsmaður féllst ekki á með ráðuneytinu að vandi stofnunarinnar varðaði málefni einstakra starfsmanna hennar.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að það gerði, á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna, ráðstafanir til þess að starfshættir Matvælastofnunar yrðu framvegis í samræmi við lög og þau sjónarmið sem hann gerði grein fyrir í álitinu. Einnig beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins og Matvælastofnunar að þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu yrðu framvegis höfð í huga í störfum þeirra.