Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Stjórnsýslunefnd. Valdmörk. Lögbundið hlutverk. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 9446/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir bréfum frá eftirlitsnefnd fasteignasala þar sem fram kom sú afstaða nefndarinnar að starfsemi B ehf., og A sem fyrirsvarsmanns félagsins, bryti í bága við ákvæði laga um sölu fasteigna og skipa. Kvörtun A beindist einkum að því að eftirlits­nefndin hafi farið út fyrir heimildir sínar og valdsvið við meðferð málsins en einnig að málsmeðferð hennar af þessu tilefni. Athugun umboðsmanns laut að því hvort sú afstaða og þær kröfur sem voru settar fram í bréfunum hefðu verið í samræmi við lögbundið hlutverk nefndarinnar.

Umboðsmaður rakti að hlutverk eftirlitsnefndar fasteignasala væri einkum að annast eftirlit með störfum löggiltra fasteignasala samkvæmt fyrirmælum laga um sölu fasteigna og skipa og eftir atvikum beita slíka aðila viðurlögum á grundvelli þeirra. Eftirlits- og valdheimildir hennar tækju fyrst og fremst mið af því hlutverki. Hins vegar hefði nefndin jafnframt sérstaka heimild til að bregðast við ef henni bærust upplýsingar um að maður sem ekki hefði fengið löggildingu til fasteignasölu stundaði slíka starfsemi. Nefndin hefði í slíkum tilvikum lögbundna heimild til að óska eftir því við sýslumann að starfsstöð viðkomandi yrði lokað þegar í stað en aðeins sýslumaður ætti ákvörðunarvald um það.

Umboðsmaður tók fram að í bréfum eftirlitsnefndarinnar hefði afstaða hennar til starfsemi A og B ehf. verið sett fram með afdráttarlausum hætti og þess krafist að starfsemi þeirra yrði lögð niður og starfsstöð félagsins lokað í ljósi þess að nefndin teldi hana ekki í samræmi við lög. Það var álit umboðsmanns að slíkar kröfur hefðu ekki verið í samræmi við þau valdmörk milli nefndarinnar og sýslumanna sem kveðið væri á um í því lagaákvæði sem fjallar um heimildir nefndarinnar gagnvart þeim sem stunda fasteignasölu án réttinda eða valdheimildir nefndarinnar að öðru leyti. Sama mætti segja um sambærilega afstöðu og kröfur í bréfi sem nefndin sendi A og  B ehf. eftir að niðurstaða sýslumanns um að hafna beiðni nefndarinnar um lokun starfsstöðvar lá fyrir, en þar með hafði sá aðili sem var að lögum bær til að taka endanlega ákvörðun í málinu tekið afstöðu. Umboðsmaður taldi því að eftirlitsnefnd fasteignasala hefði farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með bréfum sínum til A og B ehf.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til eftirlitsnefndarinnar að endurskoða framsetningu á þeirri afstöðu og kröfum sem hún setti fram í bréfum sínum til A og B ehf. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu. Einnig mæltist hann til þess að nefndin hefði þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.