Sveitarfélög. Samgöngumál. Menntamál. Skólaakstur. Valdmörk. Framsending máls.

(Mál nr. 7660/2013)

A kvartaði yfir þátttöku sveitar­félags í kostnaði sem féll til vegna skóla­­aksturs milli lögheimilis hans og grunnskóla þar sem barn hans var nemandi. Þá laut kvörtunin einnig að fyrir­komu­lagi snjómoksturs á veginum frá [,..] og að lög­heimili hans að [...]í tengslum við skóla­aksturinn.

A hafði leitað til innanríkisráðuneytisins vegna málsins en það ekki talið ástæðu til að aðhafast vegna þess. Umboðsmaður leitaði eftir skýringum hjá innanríkisráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu og virtist ágreiningslaust að mál A gæti komið til skoðunar hjá síðarnefnda ­ráðuneytinu. Við frekari eftirgrennslan umboðsmanns nokkrum mánuðum síðar kom hins vegar í ljós að mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafði ekki borist erindið eða haft það til frekari skoðunar og að innanríkisráðuneytið hafði ekki sent fyrrnefnda ráðuneytinu málið til úrlausnar. Ekki varð heldur ráðið að A hefði verið leiðbeint sérstaklega um að leita þangað. Málið var að lokum framsent mennta- og menningarmála­ráðuneytinu til umfjöllunar og lauk þá að svo stöddu af hálfu umboðsmanns. Hann benti A þó á að hann gæti leitað til sín að nýju teldi hann sig enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.  Með hliðsjón af atvikum málsins skrifaði hann báðum ráðuneytum jafnframt bréf þar sem hann kom ábendingum á framfæri í tengslum við meðferð málsins.

Umboðsmaður benti innanríkisráðuneytinu á að ef það hefði verið afstaða þess að ákveðnir þættir málsins heyrðu undir mennta- og menningarmála­ráðuneytið hefði því borið að framsenda málið til þess, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu reyndi sérstaklega á hverjar væru skyldur stjórnvalda þegar vandkvæði við samgöngur settu strik í reikninginn við framkvæmd á skólaskyldu barna á grunnskólaaldri. Þegar ekki væri fyllilega ljóst hver færi með umsjónar- og eftir­litshlutverk á landsvísu þegar reyndi á framkvæmd skólaskyldu barna væri sérstaklega mikilvægt að þau ráðuneyti sem í hlut ættu greiddu fyrir því að foreldri sem sinnti því lögbundna hlut­verki sínu að gæta hagsmuna barna sinna væri leiðbeint um hvert það ætti að leita með viðkomandi álitamál og að erindum þess væri komið til réttra yfirvalda innan stjórnkerfisins. Þá væri mikilvægt þegar reyndi á eftirlit með framkvæmd málaflokka sem heyrðu beint undir ráðuneyti, t.d. samgöngumál, og síðan eftirlit ráðu­neyta með því að sveitarfélög gegndu skyldum sínum samkvæmt lögum, að hlutaðeigandi ráðuneyti hefðu með sér samráð og samvinnu um að koma málum borgaranna í réttan farveg með það í huga að fundin væri viðeigandi lausn á þeim ágreiningi sem væri uppi og þá innan þess ramma sem lög settu. Umboðsmaður taldi mikilvægt í ljósi þeirra atvika sem orðið höfðu í þessu máli að ráðuneytin hefðu þessar ábendingar framvegis í huga í störfum sínum, og þá sérstaklega meðan ekki hefðu verið gerðar breytingar á lögum um skipan eftirlits ráðu­neytanna með ákvörðunum og framkvæmd sveitarfélaganna á málefnum grunnskóla.

Umboðsmaður gerði einnig athugasemdir við að skýringar innanríkisráðuneytisins hefðu ekki borist fyrr en tæpu ári eftir að fyrirspurn hans var send og að erindi A hefði ekki verið framsent fyrr en tíu mánuðum frá því að ráðuneytið lýsti því yfir í þeim skýringum að það teldi málið heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Að lokum áréttaði umboðsmaður sjónarmið sem hann hafði áður komið á framfæri vegna mála sem tengjast valdmörkum milli ráðuneyta þegar kæmi að eftirliti með starfsemi grunnskóla sveitarfélaganna með bréfi 9. desember 2014 í máli nr. 5700/2009, m.a. um að lagabreytingar sem fælu í sér einfaldara kæruferli samkvæmt grunnskólalögum leystu ekki úr allri óvissu um verkaskiptingu mennta- og menningarmálaráðuneytis og ráðuneytis sveitarstjórnarmála og mikilvægt væri að greitt væru úr óvissu um valdmörk, m.a. til að tryggja að leiðbeiningar til borgaranna væru viðhlítandi.