Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Frestun máls. Rannsóknarreglan. Andmælaréttur.

(Mál nr. 9810/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ráðningu Landspítalans í starf yfirlæknis þar sem hann var annar umsækjenda. A hafði verið tilkynnt um að hann yrði boðaðir í starfsviðtal að fengnu áliti stöðunefndar lækna um hæfni hans. Að undangengnum samskiptum A og Landspítala ákvað spítalinn að halda áfram meðferð ráðningarmálsins án starfsviðtals við A. Athugun umboðsmanns laut að því hvort málsmeðferð spítalans hefði að þessu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um frestun máls að teknu tilliti til samspils þess við aðrar málsmeðferðarreglur laganna. Þá einkum hvort spítalinn hefði tilgreint frest og tekið afstöðu til frestbeiðna A með skýrum og ótvíræðum hætti áður en málinu var framhaldið.

Umboðsmaður benti á að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga tengist innbyrðis og samspil þeirra hafi áhrif á það hvernig reglunum sé beitt. Þannig gæti það verið liður í að stjórnvald upplýsi mál nægjanlega, áður en ákvörðun væri tekin í því, að það setti málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn þess og tjá sig um það. Við ákvörðun á slíkum fresti gæti jafnframt verið tilefni til þess að hafa hann stuttan í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Einnig að leiðbeina aðila máls um það hvort æskilegt væri að hann kæmi á framfæri sérstökum upplýsingum og hvaða áhrif það hefði á meðferð málsins gerði hann það ekki.  

Umboðsmaður benti á að samkvæmt gögnum málsins yrði ekki ráðið að spítalinn hefði tilkynnt A um ákveðinn frest sem hann hefði til þess að mæta í starfsviðtal. A hafi óskað eftir að viðtalinu yrði frestað þar sem hann taldi sig þurfa að kynna sér gögn málsins og tjá sig um þau, t.d. um álit stöðunefndar lækna sem barst eftir að umsóknarfrestur rann út. Spítalinn hafi hins vegar ekki upplýst A um að ekki væri tilefni til að fresta starfsviðtali við hann fyrr en degi áður en honum var tilkynnt um að málinu yrði framhaldið án viðtals við hann auk þess sem spítalinn hefði ekki sett A skýran og ótvíræðan frest að þessu leyti.

Að virtum atvikum málsins heildstætt, einkum samskiptum A og Landspítala um starfsviðtal, var það álit umboðsmanns að málsmeðferð spítalans við ráðningu í starfið hefði ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um frestun máls. Það var jafnframt niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferðin hefði verið í andstöðu við rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga þar sem A hefði þar með ekki gefist raunhæft færi á að tjá sig eða svara spurningum af hálfu spítalans sem gátu haft þýðingu við mat á hæfni hans til að gegna hinu auglýsta starfi.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Landspítalans að leitað yrði leiða til að rétta hlut A og að spítalinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.