Opinberir starfsmenn. Skipurit. Staðfesting ráðherra. Birting. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 9841/2018)

A o.fl., yfirlæknar á x-sviði Landspítala, leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir breytingum á skipulagi sviðsins. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvaða skipurit ráðherra staðfesti í tilefni af þeim breytingum sem kvörtun yfirlæknanna laut að og hvernig það uppfyllti skilyrði laga.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra eftirlit með stjórnskipulagi heilbrigðisstofnana í formi staðfestingar á skipuriti stofnunar. Á þeim grundvelli væri ráðherra skylt að endurskoða og hafa eftirlit með lögmæti skipurits. Í sömu lögum væri mælt fyrir um stöðu og ábyrgð m.a. fagstjórnenda samkvæmt skipuriti heilbrigðisstofnunar. Með hugtakinu „skipurit“ í lögum um heilbrigðisþjónustu væri vísað til upplýsinga sem ættu að liggja fyrir um stjórnskipulag stofnunar og að ákveðið hefði verið að ráðherra hefði það hlutverk að hafa eftirlit með því og staðfesta lögmæti þess. Samkvæmt lögunum væri t.d. ljóst að staða og ábyrgð fagstjórnenda ættu að endurspeglast í skipuriti heilbrigðisstofnunar. Að baki því byggju ekki aðeins hagsmunir stjórnendanna og ráðherra heldur einnig notenda heilbrigðisþjónustu. Skipurit heilbrigðisstofnana þyrftu að vera skýr og gagnsæ og veita nauðsynlegar upplýsingar um skipulag og stjórnunar- og ábyrgðarröð innan hennar. Umboðsmaður taldi jafnframt í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að skipurit stofnana og staðfestingar ráðherra á þeim væru birtar með almennum og opinberum hætti, þ. á m. að staðfestingarnar væru, hvað sem liði annarri opinberri birtingu, birtar með auglýsingu ráðherra.

Þrátt fyrir ítrekuð samskipti við ráðuneytið benti umboðsmaður á að það hefði hvorki afhent honum afrit af skipuritinu sem ráðherra staðfesti eða upplýst hann um efnislegt inntak þess og mat ráðuneytisins á því. Af þeim sökum taldi hann að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að staðfesting ráðherra á skipuriti spítalans hefði farið fram og verið í samræmi við lög þegar því var breytt samhliða umræddum breytingum á x-sviði spítalans. Það var því álit umboðsmanns að ekki hefði verið sýnt fram á að staðfesting heilbrigðisráðherra á skipuriti Landspítala hefði verið í samræmi við hlutverk ráðherra sem honum væri falið samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það fjallaði um breytingar sem hefðu verið gerðar á skipuriti Landspítala samhliða umræddum breytingum á x-sviði hans og hefði þá eftirlit með lögmæti breytinganna á skipuriti spítalans. Að lokinni þeirri umfjöllun verði hið staðfesta skipurit birt með opinberum hætti. Jafnframt beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins og Landspítala að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.