A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun setts rektors Landbúnaðarháskóla Íslands um að áminna hana og samkomulagi um flutning hennar til annars háskóla. Í áminningunni var vísað til niðurstöðu siðanefndar skólans um að A hefði brotið siðareglur skólans með tilteknum ummælum í tölvupósti til starfsmanna skólans. Í yfirlýsingu um flutning A í starfi í kjölfarið kom fram að samhliða undirritun samkomulagsins drægi landbúnaðarháskólinn áminninguna til baka. Athugun umboðsmanns laut að framangreindum athöfnum stjórnvalda og málsmeðferð í aðdraganda þeirra.
Umboðsmaður rakti heimildir forstöðumanna til að áminna ríkisstarfsmenn, siðareglur landbúnaðarháskólans og reglur um takmarkanir á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Benti hann á að í lögum um opinbera starfsmenn er mælt fyrir um þau lagasjónarmið sem áminning ríkisstarfsmanns kann að byggja á. Var það álit umboðsmanns að ákvörðun setts rektors um að áminna A hefði ekki verið í samræmi við lög. Annars vegar var niðurstaðan byggð á því að ekki væri annað séð en að A hefði verið áminnt vegna niðurstöðu siðanefndar skólans, um að hún hefði brotið siðareglur skólans, án þess að settur rektor hefði reist áminninguna á sjálfstæðu mati á innihaldi og framsetningu ummælanna og þá hvort þau hafi verið í andstæðu við starfsskyldur hennar lögum samkvæmt. Hins vegar var niðurstaðan reist á því að við það mat varð jafnframt að taka tillit til þess að með áminningunni var tjáningarfrelsi A takmarkað en skólinn hefði ekki sýnt fram á að ummælin hefðu verið metin með tilliti til þess eða að ummælin hefðu verið þess eðlis að heimilt hefði verið að áminna hana fyrir þau. Þá taldi umboðsmaður skorta á að upplýsingar um þær siðareglur sem á var byggt í málinu hefðu verið samþykktar með réttum hætti.
Umboðsmaður tók jafnframt til skoðunar samkomulag sem gert var um flutning A í starfi þar sem fram kom að samhliða undirritun samkomulagsins drægi skólinn áminningu A til baka. Af gögnum málsins taldi umboðsmaður ljóst að málsmeðferð þessara athafna hefði verið samtvinnuð auk þess sem litið hafi verið svo á að leysa ætti langvarandi samskiptavanda innan skólans með flutningi A. Umboðsmaður benti á að lagagrundvöllur þessara tveggja sjálfstæðu stjórnarathafna, annars vegar áminningar og hins vegar flutnings í starfi, væri ólíkur og markmið þeirra einnig. Þótt stjórnvöld hefðu tiltekið svigrúm til að taka slíkar ákvarðanir yrðu þær að byggja á málefnalegum sjónarmiðum þar sem m.a. gæti þurft að líta til svokallaðra aðgreiningarreglna stjórnsýsluréttar. Taldi umboðsmaður að meðferð landbúnaðarháskólans á málum A, þar sem málsmeðferð annars vegar ákvörðunar um áminningu og síðar afturköllun hennar og hins vegar gerð samkomulags um flutning í starfi, hefði ekki verið í samræmi við hina efnislegu aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttar. Þannig hefðu stjórnvöld ekki sýnt fram á að þau sjónarmið sem byggt var á í aðdraganda þess að umrætt samkomulag var gert við A hefði að öllu leyti byggst á málefnalegum sjónarmiðum og ákvörðunin því að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.
Þá taldi umboðsmaður tilefni til að fjalla um ákvæði um bann við að hafa uppi frekari málaferli eða önnur eftirmál sem sett var í samkomulagið um flutning A í starfi. Umboðsmaður minnti á að af þeim almennu reglum sem gilda um störf stjórnvalda leiði að það kunni að vera takmörkunum háð í hvaða farveg mál eru lögð þegar ágreiningur rís á milli stjórnvalda og borgaranna. Þá væri það hluti af réttaröryggi borgaranna að geta almennt borið ákvarðanir og athafnir stjórnvalda undir æðri stjórnvöld eða sjálfstæða aðila ríkisins sem hafa eftirlit með stjórnvöldum. Í ljósi þess lagagrundvallar sem byggt hefði verið á um flutning A í starfi var það álit umboðsmanns að umrætt ákvæði hefði verið umfram framangreindar heimildir stjórnvalda.
Að lokum fjallaði umboðsmaður um aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að málinu. Benti hann á að mál A endurspeglaði með ákveðnum hætti sjónarmið og álitaefni sem reynt hefði á í tengslum við önnur mál sem honum hefðu borist að undanförnu og vörðuðu ráðuneytið. Samhliða áliti í máli A hefði hann sent frá sér álit í tveimur öðrum málum málum er vörðuðu ráðuneytið og ættu það sammerkt að þar hefði reynt á yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk þess. Í þessum málum hefði skort á að málsmeðferð ráðuneytisins hefði verið fullnægjandi og/eða að mál hefðu verið lögð í réttan lagalegan farveg. Þar sem ráðuneytið hefði haft verulega aðkomu að máli A, og með vísan til niðurstöðu álitsins, taldi hann að skort hefði á að aðkoma ráðuneytisins hefði verið í samræmi við yfirstjórnunarhlutverk þess lögum samkvæmt.
Umboðsmaður beindi því til landbúnaðarháskólans að leita leiða til að rétta hlut A. Jafnframt mæltist hann til þess að landbúnaðarháskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Hann kom jafnframt þeirri ábendingu á framfæri að ráðuneytið gerði viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að starfshættir þess, verklag og meðferð hliðstæðra mála yrðu framvegis betur úr garði gerð með hliðsjón af yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki þess.