Menntamál. Grunnskólar. Stjórnvaldsákvörðun. Stjórnsýslukæra. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 9944/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir viðbrögðum mennta- og menningarmála­ráðuneytis við erindi hennar. Þar hafði hún óskað eftir úrlausn ráðuneytisins á athugasemdum við stjórnsýslu grunnskóla sem vörðuðu skólagöngu tveggja barna hennar. Hún hafði áður komið þeim á framfæri við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Athugun umboðsmanns beindist að hlutverki mennta- og menningarmálaráðuneytisins við yfirstjórn og eftirlit þess með sveitarfélögum á grundvelli laga um grunnskóla. Með vísan til þess að umboðsmanni hefðu í auknum mæli borist kvartanir og ábendingar frá borgurunum er vörðuðu samskipti þeirra við ráðuneytið tók hann fram að umfjöllunin endurspeglaði einnig að hluta með almennum hætti þau álitaefni sem reyndi á þegar fjallað væri um eftirlit ráðuneytisins með málefnum og ákvarðanatöku í grunnskólum.

Umboðsmaður benti á að mennta- og menningarmálaráðherra hefði almenna yfirstjórn og eftirlit með starfsemi grunnskóla á grundvelli laga sem feli m.a. í sér að ráðuneyti hans beri að hafa eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem kveðið er á um í grunnskólalögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Ráðuneytið hafði ekki talið ástæðu til að hlutast frekar til um mál A en tók fram í bréfi um lyktir málsins að það vænti þess að hlutaðeigandi grunnskóli og skóla- og frístundasvið borgarinnar færu yfir þá „verkferla“ sem sneru að athugasemdum A með það að leiðarljósi að gera „viðeigandi úrbætur“, án frekari skýringa. 

Umboðsmaður benti á að athugasemdir A hefðu varðað fjölmörg atriði.  Í bréfi ráðuneytisins hefði ekkert verið vikið að þeim lagareglum sem gátu átt við um úrlausn og meðferð grunnskólans á þeim atriðum sem A hafði fundið að og þá um hvaða „verkferla“ væri ræða eða að hverju „viðeigandi úrbætur“ áttu sérstaklega að beinast.  Í ljósi skýringa ráðuneytisins á að kærufrestur hefði verið liðinn í umræddum málum tók umboðsmaður fram að ef það hefði verið afstaða ráðuneytisins, sem þó hefði ekki komið fram í samskiptum við A, þá hefði ráðuneytinu engu að síður borið að vísa erindinu frá með stjórnvaldsákvörðun, að því marki sem ráðuneytið taldi að um kæranlegar ákvarðanir væri að ræða. Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefði ekki talið ástæðu til að aðhafast vegna málsins hefði ekki síst verið mikilvægt að viðbrögð ráðuneytisins og afstaða endurspeglaði með viðhlítandi hætti hvaða athugasemdir A ættu að gefa sveitarfélaginu tilefni til þess að fara yfir verkferla sína og bæta þar úr. Taldi umboðsmaður að viðbrögð ráðuneytisins við erindi A hefðu ekki verið nægilega skýr og ákveðin gagnvart sveitarfélaginu og hefðu því, eins og þau voru sett fram, ekki verið í samræmi við lögboðið eftirlit þess á grundvelli grunnskólalaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að það færi á ný yfir þær athugasemdir sem A gerði við starfshætti grunnskólans og skóla- og frístundasviðs og hagaði úrlausn sinni í samræmi við þau sjónarmið sem væri lýst í álitinu og tæki framvegis mið af þeim.