Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. Stjórnsýslukæra. Formannmarki. Kærufrestur. Frávísun. Málsmeðferð stjórnvalda. Úrskurðarhlutverk. Rafræn meðferð stjórnsýslumáls. Eyðublað.

(Mál nr. 9989/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum vísaði nefndin m.a. frá kæru A um stöðvun greiðslna  og innheimtu ofgreiddra bóta á þeim forsendum að kærufrestur hafi verið liðinn. Athugun umboðsmanns laut að frávísun nefndarinnar í ljósi þess að kæra hans var talinn hafa borist utan kærufrests.

A kærði ákvörðunina fyrst með tölvupósti til úrskurðarnefndar velferðarmála og fékk það svar að til þess að kæra ákvörðunina þyrfti annaðhvort að fylla út rafræna kæru eða fylla út og undirrita kærueyðublað. Undir lok hins þriggja mánaða lögbundna kærufrests upplýsti úrskurðanefndin A um að svo lengi sem engin formleg kæra kæmi myndi hún ekki vinna í málinu. Rúmlega ári eftir tölvupóst A, þess efnis að hann kærði áðurnefnda ákvörðun, sendi hann úrskurðarnefndinni kæruna á umbeðnu rafrænu formi. Byggði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því að kæran hefði þá fyrst borist nefndinni og þriggja mánaða kærufrestur því liðinn.

Umboðsmaður vísaði  til almennra reglna stjórnsýsluréttar, sem leiða til þess að ef  erindi af hálfu borgarans felur í sér upphaf stjórnsýslumáls, þ.e. máls þar sem taka þarf eða til greina kemur að taka stjórnvaldsákvörðun, þá er viðkomandi stjórnvaldi skylt að ljúka málinu með formlegum hætti. Almennt er það gert með því að taka stjórnvaldsákvörðun, annað hvort um efni málsins eða með frávísun þess. Þegar um er ræða kæru sem haldin er lagalegum annmarka sem unnt er að bæta úr ber kærustjórnvaldinu að leiðbeina málsaðila um nauðsyn úrbóta, á hvern hátt það verði best gert og hverju það varði verði það ekki gert. Sinni málsaðili ekki tilmælum stjórnvalds um að bæta úr annmarkanum þrátt fyrir slíkar leiðbeiningar getur kærustjórnvaldið vísað málinu frá vegna annmarkans. Leiði ekki annað af þeim lögum sem við eiga stendur slík ákvörðun almennt ekki í vegi fyrir að málið verði tekið á ný til meðferðar þegar bætt hefur verið úr annmarkanum.

Umboðsmaður taldi að leggja yrði til grundvallar að tölvupóstur A til nefndarinnar þar sem fram kom að hann vildi kæra ákvörðun Tryggingastofnunar hafi markað upphaf stjórnsýslumáls, þ.e. kærumáls, hjá nefndinni. Þar með hafi stofnast skylda hjá henni til þess að leiða málið til lykta með formlegum hætti burtséð frá því hvort á málinu, eins og það var þá borið fram, væru einhverjir annmarkar. Úrskurður um frávísun málsins þar sem kæran hefði ekki verið borin fram í réttu formi hefði síðan getað gefið A tilefni til að bæta úr þessum formgalla og senda nefndinni kæru í áskildu formi.

Með vísan til þess að almennt væru ekki gerðar sérstakar kröfur um form kæru til stjórnvalda, taldi umboðsmaður ekki unnt að fallast á þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að taka kæru A ekki til meðferðar þegar hún barst upphaflega með tölvupósti og leiða hana til lykta af þeirri ástæðu einni að hún uppfyllti ekki formkröfur. Mat úrskurðarnefndarinnar á því hvort kæran hafi borist innan lögboðins kærufrests, og  þar með frávísun á grundvelli þess mats, hafi ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi því til úrskurðarnefndarinnar að taka málið til meðferðar að nýju ef A óskaði þess. Jafnframt að nefndin tæki önnur mál sem hún hefði afgreitt með sambærilegum hætti til skoðunar og leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og hefði þau framvegis í huga í störfum sínum.