Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Skilyrði þess að heilbrigðisyfirvöld megi fjarlægja númerslausar bifreiðar. Tilkynning um meðferð máls. Rannsóknarreglan. Andmælaréttur. Meðalhófsreglan. Hlutverk lægra settra stjórnvalda í kærumálum borgaranna.

(Mál nr. 10008/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefði hafnað kröfu hennar um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að fjarlægja númerslausa bifreið í hennar eigu af einkalóð hennar. Henni hefði ekki verið kunnugt um að heilbrigðiseftirlitið hefði límt viðvörunarmiða á bifreiðina fyrr en eftir að hún var dregin í burtu og því hafi hún ekki átt kost á að njóta andmælaréttar áður en það var gert. Bifreiðin hafi staðið við húsnæði hennar á einkalóð sem væri í langtímaleigu hjá sveitarfélaginu. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort sú afstaða úrskurðar­nefndarinnar, um að málsmeðferð heilbrigðis­eftirlitsins í aðdraganda þess að bifreið A var dregin burt, hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að forsenda þess að aðili gæti kynnt sér upplýsingar og gögn er tengjast máli hans sem væri til meðferðar hjá stjórnvöldum og tjáð sig um það væri að hann vissi að stjórnvaldið hefði mál hans til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga. Að virtum gögnum málsins og skýringum stjórnvalda taldi umboðsmaður ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að heilbrigðiseftirlitinu hefði verið í lófa lagið að kanna málið, a.m.k. hjá eigendum fasteignarinnar þar sem bifreiðin var staðsett, hvort vitneskja væri um eignarhald hennar, m.a. í þeim tilgangi að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort tilefni væri til að draga bifreiðina í burtu. Það var því álit umboðsmanns að heilbrigðis­eftirlitið hefði þurft að leitast við að upplýsa málið betur áður en bifreiðin var dregin í burtu í ljósi þess hvar hún var staðsett, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður benti einnig á að ef heilbrigðiseftirlitið taldi að hætta stafaði af því að bifreiðin stæði áfram á umræddum stað hefði það verið í samræmi við meðalhóf, miðað við aðstæður í málinu, að gefa eiganda bifreiðarinnar kost á að koma henni annað til geymslu. Í ljósi þessa hefði A ekki haft raunhæft tækifæri til að gæta hagsmuna sinna í málinu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en bifreiðin var dregin í burtu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Niðurstaða umboðsmanns var því að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins, og þar með úrskurðar­nefndarinnar, í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti.

Umboðsmaður fjallaði jafnframt sérstaklega um greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrir úrskurðarnefndinni sem var undirrituð af lögmanni fyrir hönd heilbrigðiseftirlitsins og á bréfsefni lögmannsstofu hans. Þar var kröfugerð lögmannsins sett fram með þeim hætti að heilbrigðiseftirlitið færi annars vegar fram á það að kröfu A yrði vísað frá nefndinni og hins vegar að kröfunni yrði hafnað. Umboðsmaður benti á að slík framsetning gæti veitt stjórnsýslumálum sem ættu að fara eftir reglum opinbers réttar villandi yfirbragð. Þá taldi hann rétt að minna á þá meginreglu stjórnsýsluréttar að borgarinn eigi að geta nýtt sér kæruleiðir til að fá efnislega niðurstöðu endurskoðaða. Markmið stjórnvalda í kærumálum væri einkum að þau yrðu leidd til lykta í samræmi við lög og réttar upplýsingar en ekki að koma í veg fyrir að mál fengju efnislega skoðun.  

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu. Þá beindi umboðsmaður því til heilbrigðiseftirlitsins að gæta framvegis betur að þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu og varða hlutverk lægra settra stjórnvalda í kærumálum borgaranna.