Börn. Foreldrar. Barnavernd. Stjórnsýslukæra. Málsmeðferð stjórnvalda. Frestir. Andmælaréttur.

(Mál nr. 9991/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að loka máli er  tengdist barni A. Athugun umboðsmanns laut einkum að þeirri afgreiðslu nefndarinnar að hafna beiðni A um viðbótarfrest til að kynna sér gögn málsins áður en úrskurður var kveðinn upp.  

Undir meðferð málsins aflaði úrskurðarnefndin greinargerðar og gagna frá Barnavernd Reykjavíkur og gaf A kost að koma að athugasemdum. Eftir að athugasemdir höfðu borist frá A voru þær sendar Barnavernd Reykjavíkur sem brást við þeim með bréfi til nefndarinnar. Það bréf ásamt öðrum gögnum málsins var sent A til kynningar og var A veittur 14 daga frestur til þess að gera athugasemdir. Þegar fresturinn var liðlega hálfnaður sendi A úrskurðarnefndinni beiðni um 30 daga frest með vísan til þess mikla umfangs trúnaðarskjala og persónuupplýsinga sem um væri að ræða. Úrskurðarnefndin hafnaði beiðninni með þeim rökum að aðilum væri ávallt gefinn 14 daga frestur og sá frestur hefði legið fyrir við afhendingu gagnanna.

Umboðsmaður benti á að beiðni A um viðbótarfrest hafi tengst því grundvallaratriði andmælaréttar að aðili fái tækifæri til að tjá sig áður en ákvörðun er tekin í máli hans. Þegar stjórnvald taki ákvörðun um lengd frests, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga, skuli m.a. taka tillit til fjölda skjala og umfangs og eðlis málsins. Við þá ákvörðun vegist m.a. á sjónarmið um málshraða og að mál skuli upplýst nægjanlega áður en ákvörðun er tekin í því í samræmi við rannsóknarskyldu stjórnvalda. Gögnin í máli A hafi verið á annað hundruð blaðsíður, sum þeirra á erlendu máli, og þau því töluvert umfangsmikil. Í þessu máli hafi auk þess legið fyrir að þriggja mánaða lögbundinn afgreiðslufrestur var þegar liðinn við lok þess frests sem úrskurðanefndin hafði veitt A. Sú staða gæti ekki ein og sér leitt til þess að beiðni A um viðbótarfrest væri synjað eingöngu með vísan til almennra viðmiða nefndarinnar um slíka fresti. Þrátt fyrir að stjórnvöld gætu sett ýmis viðmið í starfsemi sinni til að tryggja samræmi og jafnræði í framkvæmd þá breytti það ekki að í tilvikum sem þessum þyrfti að meta hverju sinni hvort skilyrði væru uppfyllt til að veita aðila frest til að kynna sér gögn málsins.

Niðurstaða umboðsmanns var að ekki yrði séð að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði lagt fullnægjandi mat á beiðni A um viðbótarfrest með hliðsjón af atvikum málsins og þá einkum umfangi þeirra gagna sem lágu fyrir í málinu þegar hún óskaði eftir fresti. Þar með hefði afgreiðsla nefndarinnar ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um frestun máls. Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu og að fylgja eftir áformum um að yfirfara verkferla með það fyrir augum að bæta upplýsingagjöf til kærenda í tengslum við beiðnir um frest.