Almannavarnir. Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Skíðasvæði. Laun eftirlitsmanna. Málsmeðferð. Stjórnsýslueftirlit.

(Mál nr. 9911/2018)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að hafna því að laun eftirlitsmanns vegna eftirlits með ofanflóðahættu á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði skyldu greiðast úr ríkissjóði. Niðurstaða ráðuneytisins var byggð á því að markmið laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hefði einkum verið að vernda íbúabyggð en ekki hefði staðið til að ríkissjóður stæði undir kostnaði við slíkt eftirlit á frístundasvæðum. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ákvörðun ráðuneytisins og þær forsendur sem þar var byggt á við túlkun á ákvæðum laganna að þessu leyti hefði verið í samræmi við lög. Þá taldi hann tilefni til að fjalla um hvort málið hefði verið lagt í réttan farveg af hálfu ráðuneytisins og Veðurstofu Íslands, m.a. með tilliti til möguleika aðila á að fá ákvörðun lægra setts stjórnvalds endurskoðaða innan stjórnsýslunnar.

Umboðsmaður benti á að óumdeilt væri að hluti skíðasvæðisins á Siglufirði væri skilgreint sem hættusvæði í skilningi laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Ráðuneytið hefði aftur á móti byggt á því að markmið laganna hafi ekki staðið til þess að ríkið stæði undir kostnaði við eftirlit á frístundasvæðum. Í því sambandi hefði verið bent á almennar athugasemdir með frumvarpi því er varð að lögunum um að slíkt eftirlit ætti fyrst og fremst að ná til þéttbýlis. Umboðsmaður benti á að gerðar hefðu verið breytingar á því frumvarpi sem upphaflega var lagt fyrir Alþingi. Í meðförum þingsins hefði ákvæði um hættusvæði sérstaklega verið víkkuð út og lögð áhersla á að hættumat skyldi ná til skíðasvæða til jafns á við íbúðabyggð og að tryggja skyldi öryggi fólks á slíkum svæðum. Ekki væri því hægt að fallast á túlkun og skýringar ráðuneytisins að þessu leyti. Var niðurstaða umboðsmanns því sú að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að það hefði lagt viðhlítandi grundvöll að ákvörðun sinni í málinu og þar með að ákvörðun þess hefði verið í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Við meðferð málsins hafði Veðurstofa Íslands samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið um það hvernig leysa ætti úr erindi félagsins sem lauk með ákvörðun ráðuneytisins án þess að málið hafi verið tekið til sjálfstæðrar umfjöllunar af hálfu veðurstofunnar eða tekin ákvörðun af hennar hálfu. Taldi umboðsmaður að nærtækara hefði verið að veðurstofan sem lægra sett stjórnvald hefði fjallað sjálfstætt um málið á grundvelli laganna og tekið afstöðu til erindis félagsins. Að fenginni niðurstöðu veðurstofunnar hefði félaginu síðan verið unnt að leita til ráðuneytisins teldi það sig hafa verið beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar. Málsmeðferð þessara stjórnvalda í málinu hefði því ekki verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um verkskiptingu á milli þeirra sem lægra og æðra setts stjórnvalds. 

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál A ehf. til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu. Þá beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins og veðurstofunnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu í álitinu.