Skattar og gjöld. Þjónustugjöld. Fjallskil. Stjórnvaldsfyrirmæli. Undirbúningur að setningu stjórnvaldsfyrirmæla.

(Mál nr. 2638/1999)

A, eigandi jarðarinnar X í Dalasýslu, kvartaði yfir því að honum væri gert að taka þátt í fjallskilum, þ.e. smala land jarðarinnar og greiða fjallskilagjald, enda þótt hann ætti hvorki sauðfé né hross og væri ekki búsettur á jörðinni.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 6/1986, um afréttamálefni og fjallskil, og forsögu laganna. Samkvæmt 2. gr. laganna fara sveitarfélög með afrétta- og fjallskilamál innan umdæma sinna eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum. Ákvæði um skyldu manna til þátttöku í fjallskilum er að finna í 38.-41. gr. laganna og á grundvelli 3. gr. þeirra hefur verið sett fjallskilasamþykkt fyrir Dalasýslu nr. 532/1997. Samkvæmt fyrri málsl. 42. gr. laganna skal fjallskilum í afréttum og öðrum sumarbeitarhögum jafnað niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings. Í síðari málsl. sömu lagagreinar er mælt fyrir um heimild til að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, enda eru ákvæði þess efnis í fjallskilasamþykkt. Taldi umboðsmaður að í ákvæðinu fælist heimild til töku þjónustugjalds eins og það hugtak hefði verið skilgreint í íslenskum rétti.

Umboðsmaður benti á að í lögum nr. 6/1986 væri ekki skilgreint hverjir væru fjallskilaskyldir aðilar í merkingu laganna. Með hliðsjón af ákvæðum V. kafla laganna, um göngur og réttir, og almennri málvenju yrði að skýra orðin „fjallskilaskyldir aðilar“ á þann veg að átt væri við þá aðila, sem eiga og/eða halda búfénað sem þeim er skylt samkvæmt lögum eða viðkomandi fjallskilasamþykkt að reka í afrétt eða önnur sameiginleg beitilönd, sem fjallskilaframkvæmd tekur til. Ljóst væri að A hefði ekki talist til fjallskilaskyldra aðila. Umboðsmaður taldi að engu að síður þyrfti að taka afstöðu til þess hvort Dalabyggð hefði verið heimilt að gera A að greiða hluta af fjallskilakostnaði Dalabyggðar á grundvelli síðari málsliðar 42. gr. laga nr. 6/1986. Í 7. gr. laga nr. 6/1986 væri kveðið á um að allir búfjáreigendur, sem landsafnot hefðu í hreppi eða á félagssvæði fjallskiladeildar, ættu upprekstrarrétt á afrétt hrepps eða annars upprekstrarfélags. Tók umboðsmaður fram að í bréfi Dalabyggðar kæmi fram að jörðinni X fylgdi aðeins réttur til að nota eigið „heimaland“ til búfjárbeitar, en um smölun á því og kostnað við hana færi eftir 39. og 41. gr. laga nr. 6/1986. Ákvæði síðari málsliðar 42. gr. laganna yrði að skýra á þann veg að heimilt væri að jafna niður kostnaði af fjallskilum á öðrum landssvæðum en heimalöndum. Taldi umboðsmaður að greiðsluskylda samkvæmt ákvæðinu væri ekki bundin við þá sem væru fjallskilaskyldir. Með tilliti til þess lagagrundvallar að um þjónustugjald væri að ræða yrði kröfu um greiðslu fjallskilagjalds samkvæmt ákvæðinu aðeins beint að eigendum þeirra jarða sem notuðu eða ættu kost á að nota það land sem fjallskilin tækju til. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum yrði ekki séð að A hefði sem eigandi jarðarinnar X átt þess kost að nota til búfjárbeitar nein þau lönd þar sem kostnaður við fjallskil féll til. Niðurstaða umboðsmanns var því sú að Dalabyggð hefði ekki verið heimilt að krefja A um greiðslu fjallskilagjalds.

Þá gerði umboðsmaður grein fyrir eftirlitsskyldu landbúnaðarráðherra við staðfestingu fjallskilasamþykkta. Benti umboðsmaður á að ráðherra yrði að gæta þess að fjallskilasamþykkt væri í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Gjaldtaka mætti ekki vera umfram kostnað hlutaðeigandi fjallskiladeildar af fjallskilum. Þá þyrftu í samþykktunum að koma fram þau meginsjónarmið sem lægju til grundvallar ákvörðun gjaldsins. Taldi umboðsmaður að fjallskilasamþykkt Dalasýslu nr. 532/1997 fullnægði ekki framangreindum kröfum.