Umboðsmaður Alþingis hefur unnið að frumkvæðisathugun vegna stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Tildrög athugunarinnar voru m.a. kvartanir og ábendingar vegna samskipta stjórnvalda við einstaklinga þar sem ekki varð séð að í öllum tilvikum hefði verið með nægjanlega góðum hætti hugað að því að þeir t.d. skildu úrlausnir sem þeir fengu frá stjórnvöldum og fengju viðeigandi leiðbeiningar. Umboðsmaður ákvað af þessu tilefni að taka tiltekin atriði tengd þessum málum til skoðunar að eigin frumkvæði. Var af því tilefni óskað eftir nánari upplýsingum frá 29 stjórnvöldum þar sem við úrlausn mála mætti ætla að reynt hefði á samskipti við einstaklinga sem ekki skilja íslensku. Umboðsmaður lauk málinu með áliti þar sem fram kemur að markmið umfjöllunar þess sé einkum að draga með almennum hætti fram stöðu þeirra einstaklinga sem ekki skilja íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld hér á landi með hliðsjón af núgildandi lagaumhverfi og eftir atvikum framkvæmd og afstöðu stjórnvalda á þessu sviði, eins og hún birtist í svörum þeirra til umboðsmanns.
Í áliti umboðsmanns er bent á að löggjöf um starfshætti stjórnsýslunnar síðustu rúma tvo áratugi hafi verið á aukið réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld sem og aukið vægi mannréttindareglna. Mikilvægt væri að þeir ættu þess kost að geta kynnt sér þær reglur sem gilda um þau málefni sem mættu þeim í daglegu lífi og átt í samskiptum við stjórnvöld á tungumáli sem þeir skilja. Miklar breytingar hefðu orðið á íbúasamsetningu samfélagsins á undanförnum árum með fjölgun útlendinga sem hér búa og starfa sem hafi leitt til þess að aukinn fjöldi þeirra sem á í samskiptum við stjórnsýsluna skilji ekki íslensku. Af svörum stjórnvalda til umboðsmanns mætti í samræmi við þetta ráða að þörf fyrir þýðingar og túlkun hefði aukist verulega á síðustu árum. Í mörgum tilvikum yrði ekki annað séð en að stjórnvöld leituðust almennt við að tryggja að einstaklingar sem ekki skilja íslensku fengju úrlausn erinda sinna og veittu viðeigandi aðstoð. Ætti það t.d. við í tilvikum stærri sveitarfélaga á sviði velferðar- og skólaþjónustu. Hins vegar væri ljóst að lagaleg umgjörð þessara mála og framkvæmd stjórnvalda á reglum sem gilda um meðferð mála í stjórnsýslunni tryggðu almennt ekki að þeir sem ekki skilja íslensku gætu gætt réttinda sinna með fullnægjandi hætti í samskiptum við stjórnvöld.
Umboðsmaður tók fram að athugun hans hefði varpað ljósi á að skyldur stjórnvalda til að eiga í samskiptum við borgarana á öðru tungumáli en íslensku byggja, fyrir utan einstök sérlagaákvæði, á almennum og matskenndum lagagrundvelli. Við athugunina hafi komið í ljós að stjórnvöld taka á þessum málum með misjöfnum hætti og lítils samræmis gæti milli stjórnvalda þrátt fyrir að sambærilegar ákvarðanir kunni að vera undir gagnvart borgurunum. Staða þeirra til að átta sig á hvaða framkvæmd einstök stjórnvöld viðhafa í þessu efni væri því erfið. Umboðsmaður benti jafnframt á að ekki væri séð að stjórnvöld hér á landi hafi beitt reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttarins með þeim hætti að þær veiti borgurunum réttindi að þessu leyti í samræmi við þá túlkun sem fylgt hefur verið í norrænum rétti. Þá ályktun væri jafnframt hægt að draga af svörum stjórnvalda og þeirri almennu athugun sem umboðsmaður hefði gert á stöðu og framkvæmd þessara mála að stjórnvöld og starfsmenn þeirra væru í ákveðinni óvissu um hvaða skyldur hvíli á þeim um notkun tungumála í samskiptum við þá sem ekki tala eða skilja íslensku þegar sleppir sérákvæðum í lögum um þær skyldur. Þá skorti verulega á að framkvæmd stjórnvalda væri samræmd eða gert ráð fyrir kostnaði við slík mál í fjárveitingum þeirra. Þessa óvissu mætti m.a. rekja til þess hvernig Alþingi hafi hagað almennri lagasetningu um þessi mál með stefnuviðmiðum eða málstefnum sem skapi óvissu um réttarstöðu borgaranna að þessu leyti.
Í samræmi við þau lagalegu álitaefni sem rakin eru í álitinu beindi umboðsmaður ábendingum og tilmælum til Alþingis og ráðherra að tekin yrði afstaða til þess með skýrari hætti en nú er gert að hvaða marki eigi að mæta þörfum þeirra sem ekki skilja íslensku í samskiptum þeirra við íslensk stjórnvöld og hvaða kröfur væru gerðar til málsmeðferðar stjórnvalda að þessu leyti. Þá þyrfti málsmeðferð stjórnvalda að taka mið af því að tryggja réttindi borgaranna sem væru undirliggjandi hverju sinni. Stjórnvöld yrðu því í samskiptum við þá einstaklinga sem ekki skilja íslensku að hafa tiltekin sjónarmið í huga í samræmi við þær skyldur sem má leiða af gildandi rétti. Skýrari afstöðu af hálfu löggjafans, og eftir atvikum stjórnvalda, væri þörf stæði vilji til þess að tryggja að einstaklingar sem ekki skilja íslensku fengju fullnægjandi aðstoð og þjónustu þegar þeir leiti til stjórnvalda og þá til að tryggja að málsmeðferðarreglum væri fylgt og þau uppfylltu þær skyldur sem á þeim hvíla. Álitið gæfi fyrst og fremst tilefni til að hugað yrði að úrbótum í þessum efnum stæði vilji til þess af hálfu stjórnvalda að bæta réttarstöðu þessa hóps og tryggja réttaröryggi þeirra að því marki sem stjórnvöld gætu haft frumkvæði að slíku. Alþingi þyrfti síðan að koma að lagasetningu um þessi mál auk þess sem í framkvæmd skorti verulega á stefnumótun og samvinnu milli stjórnvalda í þessum málaflokki.
Umboðsmaður sendi öllum ráðherrum álitið með það í huga að þeir tækju þau tilmæli og ábendingar sem settar væru fram í álitinu til umfjöllunar að því marki sem þær ættu við um þau málefnasvið sem þeir fara með. Álitið var jafnframt sent þeim 29 stjórnvöldum sem óskað var eftir upplýsingum frá í tilefni af athuguninni. Þá var álitið sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga til upplýsingar þar sem viðfangsefni þess tekur til stjórnsýslu sveitarfélaga og með þeirri ósk að það yrði kynnt sveitarstjórnum. Loks var álitið sent forseta Alþingis vegna þeirra lagalegu atriða sem fjallað er um í álitinu. Tók umboðsmaður fram að hann myndi áfram fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum stjórnvalda og Alþingis í kjölfar álitsins sem gæti þá orðið tilefni þess að hann tæki tiltekin afmörkuð atriði til frekari skoðunar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar.