A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem nefndin staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja A um uppbætur/styrk til kaupa á bifreið. Niðurstaða nefndarinnar byggðist einkum á því að samkvæmt ákvæði reglugerðar um slíka styrki þyrfti hreyfihamlaður einstaklingur, ef hann hefði ekki sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, að hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag. Nefndin taldi að þjónustuáætlun sem A hefði gert við sveitarfélag væri ekki samningur í þessum skilningi og því uppfyllti hann ekki skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa. Athugun umboðsmanns laut að þessari afstöðu úrskurðarnefndarinnar og þar með hvort fullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að niðurstöðu hennar í málinu.
Umboðsmaður benti á að af orðalagi umræddra reglugerðarákvæða reyndi á hvort umsækjandi væri í sjálfstæðri búsetu og hefði persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða „sambærilegan samning“. Af orðalagi reglugerðarákvæðanna væri ljóst að ekki væri gerður áskilnaður um að tiltekið form væri á þjónustu sveitarfélagsins, þ.e. að umsækjandi nyti þjónustu á tilteknum lagagrundvelli.Slíkan áskilnað mætti auk þess ekki leiða af lögum. Jafnframt yrði að líta til þess á hvaða lagagrundvelli samningar eða samkomulag við sveitarfélög um þjónustu við fatlað fólk byggðist. Þar væri lögð áhersla á sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks og markmið slíkrar þjónustu að koma til móts við þarfir þeirra og óskir. Markmið mismunandi útfærslu í lögum væri að auka val þess um þjónustuform og fyrirkomulag aðstoðar.
Umboðsmaður benti á að óumdeilt væri að A byggi í sjálfstæðri búsetu og ekki væri deilt um hvort hann uppfyllti skilyrði laga um hreyfihömlun til að fá uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Þá byggi hann í eigin húsnæði en ekki í sérstöku húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk á vegum sveitarfélags og samnýtti ekki þjónustu með öðrum að því leyti eða nyti akstursþjónustu sveitarfélags. Þá lægi fyrir samkomulag milli sveitarfélags og A um persónulega aðstoðarmenn sem veittu honum þjónustu á heimili hans allan sólarhringinn. Sú þjónusta væri útfærð sem þjónustuáætlun á grunni reglugerðar um málefni fatlaðs fólks og fjallaði með heildstæðum hætti um þá aðstoð og þjónustu sem A fengi frá sveitarfélaginu, þar sem m.a. væri gert ráð fyrir að A hefði afnot af bíl. Það eitt að sveitarfélag veldi, að höfðu samráði við fatlaðan einstakling, tiltekið form samnings og ráðstöfun fjármuna í þessu skyni gæti ekki útilokað einstakling frá því að njóta umræddrar uppbótar/styrks ef hann uppfyllti að öðru leyti þau skilyrði sem sett væru. Þar þyrfti jafnframt að gæta að samræmi og jafnræði í lagalegu tilliti. Þá væri ekki séð að munur væri að þessu leyti á því hvort einstaklingur greiddi sjálfur aðstoðarmönnum laun samkvæmt samningi við sveitarfélag eða að viðkomandi starfsmenn hefðu ráðningarsamning við sveitarfélag.
Það var álit umboðsmanns að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli A hefði ekki verið í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggðist á því að nefndin hefði við túlkun sína á reglugerðarákvæðunum, þar sem lagt var til grundvallar að þjónustuáætlun A gæti ekki talist samningur í skilningi ákvæðanna, þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem orðalag þeirra fæli í sér með hliðsjón af þeim réttindum sem væru undirliggjandi og sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks. Við það mat hefði nefndin ekki tekið nægjanlegt mið af stöðu A og inntaki þjónustuáætlunar hans sem og á hvaða lagagrundvelli slík þjónusta væri almennt veitt.
Umboðsmaður beindi því til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram ósk þess efnis frá honum, og haga þá málsmeðferð í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu sem og framvegis í störfum sínum.