Menningarmál. Greiðslur vegna afnota af bókum. Upphaf stjórnsýslumáls. Leiðbeiningarskylda.

(Mál nr. 10234/2019)

Rithöfundur sem ritað hefur undir dulnefninu Stella Blómkvist leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun úthlutunarnefndar samkvæmt 8. gr. laga nr. 91/2007, um bókmenntir, á greiðslum úr sérstökum sjóði fyrir notkun á bókum höfundarins á bókasöfnum á tímabilinu 2005 til 2012. Rithöfundurinn hafði áður leitað til umboðsmanns í tengslum við umrætt mál sem lokið var með áliti setts umboðsmanns 28. febrúar 2018 í máli nr. 9211/2017.  Þar var það niðurstaða setts umboðsmanns að sú afstaða úthlutunarnefndarinnar, að rithöfundur sem notar dulnefni geti ekki fengið greiðslur fyrir útlán bóka nema hann gæfi upp nafn sitt, væri of fortakslaus og þar með ekki í samræmi við lög. Í kjölfarið beindi rithöfundurinn erindi til úthlutunarnefndarinnar þar sem sett var fram ósk um greiðslu fyrir útlán á bókum hans aftur til ársins 1997. Ári síðar féllst nefndin á að höfundurinn ætti rétt á greiðslum úr sjóðnum aftur til ársins 2012. Var einkum á því byggt að réttur rithöfundarins til greiðslu hefði stofnast árið 2012 þegar fyrir hefði legið umsókn frá honum en fram að því hefði eingöngu verið um fyrirspurnir af hans hálfu að ræða. Var þar m.a. vísað til tölvupósts höfundarins til sjóðsins árið 2005 þar sem hann spurði hvernig hann gæti fengið greiðslur fyrir bækur sínar. Aðgerðarleysi höfundarins í kjölfar þeirra samskipta við nefndina hefði auk þess skipt máli í þessu sambandi þar sem hann hefði ekki haft aftur samband fyrr en 2012. Athugun setts umboðsmanns beindist að framangreindri afstöðu nefndarinnar.

Settur umboðsmaður rakti lögbundið hlutverk nefndarinnar við úthlutun greiðslna úr sjóðnum til höfunda fyrir afnot af bókum þeirra á bókasöfnum. Benti hann á að um málsmeðferð nefndarinnar vegna slíkra ákvarðana giltu ákvæði stjórnsýslulaga og óskráðar grundvallar­reglur stjórnsýsluréttar. Ef erindi af hálfu borgarans fæli í sér upphaf stjórnsýslumáls, væri umræddu stjórnvaldi skylt að ljúka málinu með formlegum hætti. Almennt væri það gert með stjórnvaldsákvörðun, annað hvort um efni málsins eða frávísun þess. Að jafnaði væru ekki gerðar strangar kröfur til forms eða framsetningar þeirra erinda sem borgararnir senda stjórnvöldum heldur réðist það af efni erindisins í hvaða farveg bæri að leggja það.

Með vísan til framangreinds var það afstaða setts umboðsmanns að erindi rithöfundarins til stjórnar bókasafnssjóðs árið 2005 hefði borið skýrlega með sér að hugur hans hefði staðið til þess að hann fengi greiðslur fyrir notkun á bókum sínum á bókasöfnum. Þá yrði ekki annað ráðið af svari starfsmanns sjóðsins að beiðni þess efnis væri móttekin. Með vísan til skyldu til að leiðbeina rithöfundinum um í hvaða búning erindi hans yrði að vera til að það yrði tekið til efnislegrar úrlausnar, var það niðurstaða hans að erindið frá 2005 hefði falið í sér upphaf stjórnsýslumáls sem borið hefði að leiða til lykta með stjórnvaldsákvörðun. Þegar erindi barst frá rithöfundinum að nýju árið 2012 hefði úthlutunarnefnd borið að hafa hliðsjón af því að málið hefði ekki verið sett í réttan farveg á sínum tíma og taka afstöðu til þess hvaða þýðingu það hefði fyrir rétt rithöfundarins til greiðslna á tímabilinu 2005-2012.

Settur umboðsmaður mæltist til þess að nefndin tæki mál rithöfundarins til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti úr því í samræmi við þau sjónarmið sem gerð voru grein fyrir í álitinu. Þá mæltist hann einnig til þess að nefndin tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem gerð væri grein fyrir í álitinu.