Fasteignaskráning og fasteignamat. Endurskoðun upplýsinga í fasteignaskrá. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 10480/2020)

A, fyrir hönd erfingja látinnar móður sinnar, kvartaði yfir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja beiðni hans um að skráning fjöleignarhúss yrði leiðrétt. Taldi A að tveir af fjórum eignarhlutum hússins væru ranglega skráðir á sama fasteignanúmerinu.

Athugun setts umboðsmanns Alþingis laut að því hvort niðurstaða ráðuneytisins hefði verið byggð á réttum grundvelli og þar með hvort úrskurðurinn hefði verið í samræmi við lög. Þar skipti máli hvort leyst hefði verið með fullnægjandi hætti úr beiðni A, þar á meðal hvort afstaða stjórnvalda um fjölda eignarhluta hefði verið studd viðhlítandi gögnum.

Settur umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna væri unnt að breyta upplýsingum í fasteignaskrá ef talin væri þörf á að endurskoða þær. Samkvæmt ákvæði þar um gæti sá sem teldi sig eiga hagsmuna að gæta í lýsingu fasteignar eða mati krafist endurskoðunar. Ákvæðið væri meðal annars reist á því sjónarmiði að upplýsingar í fasteignaskrá ættu á hverjum tíma að vera eins réttar og kostur væri. Ef fram kæmi beiðni um endurskoðun upplýsinga í fasteignaskrá vegna þess að þær væru rangar yrði þjóðskrá að setja beiðnina í viðeigandi farveg í samræmi við lagalegan grundvöll hennar og þá hagsmuni sem kynnu að tengjast henni.

Settur umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt sameignarsamningi um húsið yrði ekki annað ráðið en að eignarhlutar þess hefðu verið fjórir og það hefði síðan haldist óbreytt. Ekki væri því unnt að fallast á þá afstöðu sem hefði verið byggt á í úrskurði ráðuneytisins að núverandi upplýsingar í fasteignaskrá um að eignarhlutarnir væru þrír ættu stoð í sameignarsamningnum. Ráðuneytið hefði því ekki tekið fullnægjandi afstöðu til beiðni A í samræmi við lög um skráningu og mat fasteigna. Þar með væri ekki sýnt fram á að ráðuneytið hefði lagt viðhlítandi grundvöll að málinu og þar með að úrskurður þess hefði verið í samræmi við lög.

Settur umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og að það leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Auk þess sendi hann Þjóðskrá Íslands afrit af álitinu til upplýsinga.