Húsnæðismál. Hlutverk kærunefndar húsamála. Endurupptaka stjórnsýslumáls. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10093/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun kærunefndar húsamála að hafna beiðni hans um endurupptöku máls sem nefndin hafði úrskurðað í. A hafði áður leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna sama úrskurðar en þar var meðal annars kröfu hans um afslátt af leiguverði húsnæðis vegna hávaða frá byggingarframkvæmdum hafnað. Niðurstaða nefndarinnar í þeim úrskurði byggðist meðal annars á því að A hefði ekki gert leigusala grein fyrir aðfinnslum sínum innan þess frests sem kæmi fram í húsaleigulögum.

Við  fyrri athugun umboðsmanns á máli A varð ekki annað séð en að slík tilkynning hefði verið send innan lögbundins frests. Eftir að umboðsmaður hafði óskað skýringa hjá kærunefndinni upplýsti hún að málið yrði endurupptekið, kæmi fram ósk þess efnis frá A. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu. Í kjölfarið leitaði A aftur til nefndarinnar sem féllst á að endurupptaka málið. Nefndin tilkynnti A síðar að ekki væru skilyrði til að endurupptaka málið þar sem varnaraðili þess hefði ekki samþykkt endurupptöku þess samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leitaði A þá aftur til umboðsmanns með kvörtun. Beindist athugun umboðsmanns þá að málsmeðferð kærunefndar húsamála vegna erindis A um að nefndin tæki mál hans til meðferðar að nýju.

Umboðsmaður benti á að ekki yrði annað séð en að nefndin hefði gert mistök við meðferð máls A. Í úrskurði hennar hefði verið byggt á að A hefði ekki uppfyllt skilyrði um tilkynningu til leigusalans innan lögbundins frests án þess að lagt hefði verið mat á hvort tiltekinn tölvupóstur sem hann sendi hefði verið fullnægjandi og þrátt fyrir að báðir aðilar hefðu fjallað um efni tölvupóstsins í skrifum til nefndarinnar. Þrátt fyrir þessi mistök í málsmeðferð nefndarinnar, við rannsókn málsins og mat á því hvort tiltekin lagaskilyrði um tilkynningu til leigusala væru uppfyllt, hefði nefndin lagt mögulega endurupptöku málsins í farveg 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Afleiðingin af því hefði síðan verið sú að synjun gagnaðila málsins á því að endurupptaka málið samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafi verið látin girða fyrir að leyst yrði frekar úr því á grundvelli endurupptöku.

Umboðsmaður féllst ekki á að skortur á samþykki gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga ætti að girða fyrir að stjórnvald gæti bætt úr verulegum annmörkum eða mistökum sem það hefði sjálft gert við fyrri meðferð málsins. Kærunefnd húsamála hefði því borið í samræmi við ólögfestar reglur stjórnsýsluréttar um endurupptöku máls að leggja mat á hvort tilefni og skilyrði væru til breytinga eða afturköllunar á fyrri úrskurði nefndarinnar. Slíkt leiddi þó ekki sjálfkrafa til þess að breytingar yrðu gerðar á fyrri niðurstöðu stjórnvaldsins.

Umboðsmaður benti á að niðurstaða úrskurðar nefndarinnar hefði ekki eingöngu verið byggð á því að A hefði láðst að gera athugasemdir við leigusala innan lögbundins frests heldur einnig að A hefði ekki fært sönnur á að hávaði frá byggingarframkvæmdum hefði verið meiri en almennt gerðist í ljósi aðstæðna. Ljóst væri að fyrrnefnd mistök nefndarinnar högguðu ekki því sjálfstæða mati nefndarinnar að A hefði ekki fært sönnur á það atriði sem afsláttarkrafan byggðist á. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki forsendur til að leggja til grundvallar að umræddur annmarki hefði verið svo verulegur að nefndinni hefði verið heimilt að afturkalla úrskurðinn á þeim grundvelli að niðurstaða hans hefði verið ógildanleg. Það var því niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að beina þeim tilmælum til nefndarinnar að hún fjallaði á ný um mál A. Aftur á móti beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu, auk þess sem hann benti á að þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu gætu eftir atvikum átt við í störfum annarra stjórnvalda.  Í þeim efnum minnti hann á að nauðsyn þess að sjálfstæðar kæru- og úrskurðarnefndir gæti betur að því að haga meðferð mála í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar og vandaða stjórnsýsluhætti.