A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta var staðfest. Niðurstaða nefndarinnar byggðist á því að A, sem var sjálfstætt starfandi, hefði verið skráð á launagreiðendaskrá á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur og því ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga. Nefndin féllst ekki á það með A að Vinnumálastofnun hefði ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart henni um þessi skilyrði. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort nefndin hefði upplýst með viðunandi hætti hvort Vinnumálastofnun hefði gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart A.
Settur umboðsmaður benti á að lög um atvinnuleysistryggingar geri ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti fengið greiddar atvinnuleysisbætur hafi hann stöðvað rekstur og lagt fram staðfestingu þess efnis. A hefði sjálf tilkynnt Vinnumálastofnun oftsinnis um verktakavinnu á umræddu bótatímabili og hefði verið tekin af atvinnuleysisskrá þá daga. Af gögnum málsins væri þó ekki að sjá að þau samskipti hefðu nokkru sinni leitt til þess að Vinnumálastofnun hefði kannað hvort A væri á launagreiðendaskrá og leiðbeint henni um þýðingu þess. Var það afstaða setts umboðsmanns að stofnuninni hefði borið að leiðbeina A um að henni bæri að taka sig af launagreiðendaskrá og leggja fram staðfestingu þess efnis í samræmi við skilyrði laganna áður en henni voru greiddar bætur. Þar sem ekkert lægi fyrir um að það hefði verið gert yrði ekki séð að málsmeðferð Vinnumálastofnunar hefði verið í samræmi rannsóknarregluna og leiðbeiningarskyldu.
Settur umboðsmaður benti á að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði lagt til grundvallar að af gögnum málsins yrði ekki ráðið að Vinnumálastofnun hefði veitt A ófullnægjandi leiðbeiningar. Auk þess hefði nefndin vísað til staðhæfinga Vinnumálastofnunar um að umsókn A hefði ekki borið það með sér að hún hefði starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Settur umboðsmaður benti á að sú samskiptasaga sem hefði legið fyrir í málinu bæri ekki vott um að stofnunin hefði gætt að leiðbeiningarskyldu gagnvart henni. Þá hefði við meðferð málsins komið í ljós að úrskurðarnefndin hefði ekki haft umsókn hennar undir höndum þegar hún kvað upp úrskurð í málinu. Því væri ekki séð að nefndinni hefði verið stætt á að fullyrða að leiðbeiningar og upplýsingar sem komu fram á umsóknareyðublaði hefði verið fullnægjandi í þessu sambandi. Í ljósi atvika máls og þeirra gagna sem fyrir lágu hjá nefndinni við meðferð málsins féllst settur umboðsmaður ekki þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hefði veitt A ófullnægjandi leiðbeiningar. Meðferð úrskurðarnefndarinnar hefði því ekki verið samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Settur umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu stjórnvalda að A hefði ekki uppfyllt það formskilyrði laganna að hafa stöðvað rekstur í skilningi laganna og skilað inn staðfestingu þess efnis. Þrátt fyrir það væri það sjálfstætt álitaefni með hvaða hætti brugðist yrði við þeim annmörkum sem voru á málsmeðferðinni af hálfu stjórnvalda í máli hennar. Í því sambandi benti hann á að þegar ófullnægjandi leiðbeiningar leiddu til þess að málsaðili yrði af réttindum gæti það leitt til þess að gera þyrfti hann jafnsettan og ef hann hefði fengið réttar leiðbeiningar. Beindi hann því til úrskurðarnefndarinnar að taka mál A aftur til meðferðar og leysa þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum. Jafnframt var því beint til Vinnumálastofnunar að taka til skoðunar með hvaða hætti skyldi rétta hlut A kæmi mál hennar aftur til meðferðar þar.