Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. EES-samningurinn. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10077/2019)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Þar staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um að fara með greiðslur sem hún fær frá þýska lífeyrissjóðnum X sem erlendan lífeyri sem hefði sömu áhrif á útreikning greiðslna sem A naut á grundvelli laga um almannatryggingar og greiðslur úr lífeyrissjóði sem byggjast á atvinnuþátttöku á Íslandi. Athugun setts umboðsmanns laut að því hvort sú afstaða úrskurðarnefndarinnar væri í samræmi við ákvæði laga um almannatryggingar og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli EES-samningsins. Einkum hvort úrskurðarnefndin, og áður Tryggingastofnun, hefði lagt fullnægjandi grundvöll að þeirri niðurstöðu að jafna mætti greiðslum A frá X til greiðslna úr skyldubundnum lífeyrissjóðum á Íslandi.

Settur umboðsmaður benti á að af ákvæðum laga um almannatryggingar leiði að hvers kyns skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun. Þegar um tekjutryggingu sé að ræða teljist þó ekki til tekna meðal annars greiðslur sem greiddar eru á grundvelli laga um almannatryggingar, þ. á m. örorkulífeyrir. Hið sama eigi við um sambærilegar greiðslur frá ríkjum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Settur umboðsmaður tók fram að við úrlausn þess hvort bæturnar sem A fengi greiddar frá X væru sambærilegar bótum almannatrygginga reyndi á þær sérstöku reglur sem gilda samvæmt EES-samningnum um hvernig haga skuli greiðslu bóta vegna örorku þegar einstaklingur fær greiddar slíkar bætur frá fleiri en einu aðildarríki EES-samningsins. Helstu reglur sem giltu að þessu leyti væri að finna í reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 883/2004 (EB), um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Með henni hefur jafnframt verið innleidd reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 987/2009 (EB) sem kveður á um framkvæmd reglugerðar nr. 883/2004.

Settur umboðsmaður tók fram að ljóst væri að þær greiðslur sem um ræddi í málinu féllu undir ákvæði reglugerðar nr. 883/2004 (EB). Í ljósi þess hvernig Evrópudómstóllinn hefði afmarkað inntak þess ákvæðis sem á reyndi í málinu bæri úrskurðarnefnd velferðarmála, sem og Tryggingastofnun, að tryggja að viðhlítandi upplýsingar lægju fyrir um þau atriði sem hafa þýðingu við samanburð á bótagreiðslum EES-ríkja og mat á því hvort um jafngildar bætur væri að ræða í skilningi ákvæðisins. Að þessu leyti tók settur umboðsmaður fram að í reglugerð nr. 987/2009 (EB) væri sérstaklega fjallað um upplýsingaskipti og samvinnu stofnana í því skyni að upplýsa um grundvöll bótaréttinda einstaklinga. Var það afstaða setts umboðsmanns að málsmeðferð og rannsókn úrskurðarnefndarinnar hefði að þessu leyti ekki verið til þess fallin að tryggja að svo væri í máli A. Ekki væri gert ráð fyrir að leyst væri úr álitaefnum sem þessum út frá almennum upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar sem um ræðir, eins og nefndin hefði vísað til. Miðað við þær upplýsingar sem hafi legið fyrir hjá úrskurðarnefndinni væri því ekki séð að nefndin, eða Tryggingastofnun, hefði haft forsendur til að leggja á það mat hvort greiðslurnar sem A fær frá Þýskalandi miði að sama marki og ákvæði laga um almannatryggingar. Var það því niðurstaða setts umboðsmanns að úrskurður nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Þá taldi settur umboðsmaður að sú afdráttarlausa afstaða sem birtist í samskiptum Tryggingastofnunar og A vegna málsins, þ.e. að stofnunin meðhöndli allar lífeyrissgreiðslur sem eru ákvarðaðar út frá fyrri launum eða greiðslu iðgjalda, kynni að vera tilefni fyrir umboðsmann Alþingis að taka framkvæmd stofnunarinnar að þessu leyti til almennrar athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál A aftur til meðferðar og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í áliti hans. Þá beindi settur umboðsmaður því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem lýst væri í álitinu um túlkun þess hvenær um sambærilegar bætur er að ræða frá þeim ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við og eiga aðild að EES-samningnum á grundvelli laga um almannatryggingar.