Veiðimál og veiðiréttindi. Lax- og silungsveiði. Rannsóknarhlutverk Hafrannsóknarstofnunar. Birting upplýsinga á vefsíðu. Svör stjórnvalda við erindum sem þeim berast. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Svör stjórnvalds til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10358/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir að Hafrannsóknastofnun hefði notað rannsóknargögn frá sér án heimildar og birt niðurstöður um þau í frétt á vefsíðu stofnunarinnar og án þess að hans væri getið. Jafnframt laut kvörtun hans að því hvernig brugðist hefði verið við athugasemdum hans í kjölfarið. Rannsóknargögn A lutu að upprunagreiningu strokulaxa sem Matís ohf. hafði greint fyrir A. Athugun setts umboðsmanns beindist að hvort stofnuninni hafi verið heimilt að birta umræddar upplýsingar og hvernig leyst var úr erindum hans þegar hann gerði athugasemdir við birtinguna.

Settur umboðsmaður benti á að Hafrannsóknastofnun hefði þegar atvik málsins áttu sér stað ákveðið hlutverk að lögum um að sinna rannsóknum á sviði fiskeldis. Þrátt fyrir það yrði hvorki dregin sú ályktun af lögum að einkaaðilum sem stunduðu rannsóknir á sama sviði væri skylt að afhenda Hafrannsóknastofnun rannsóknargögn né að stofnunin gæti notað og birt þau gögn án tillits til vilja þeirra sem ættu gögnin. Ef stofnuninni bærust slík gögn, til dæmis vegna beiðni um aðstoð við rannsóknir, hefði hún því ekki frjálsar hendur um hvernig hún færi með gögnin heldur væri hún bundin af þeim skráðu og óskráðu reglum sem giltu um starfsemi hennar sem og þeim reglum sem giltu um réttindi þess einkaaðila sem leituðu til hennar um aðstoð. Í þessu sambandi yrði að hafa í huga að stofnunin gegndi sem stjórnvald þjónustuhlutverki gagnvart borgurunum samkvæmt lögum. Miklu varðaði að hún hagaði samskiptum við þá og færi með erindi þeirra og upplýsingar sem kæmu fram í samræmi við efni þeirra.

Settur umboðsmaður vakti athygli á að Hafrannsóknastofnun hefði, eftir samskipti við umboðsmann Alþingis, viðurkennt mistök í málinu og beðið A afsökunar á birtingu fréttarinnar. Af þeim sökum og í ljósi þess sem fælist í kröfunni um vandaða stjórnsýsluhætti skyti skökku við að stofnunin hefði ekki leiðrétt fréttina til samræmis við eigin afstöðu og beiðni A. Taldi hann rétt að stofnunin gerði þegar í stað reka að því að leiðrétta fréttina. Þá taldi settur umboðsmaður að stofnunin hefði ekki brugðist við erindum A í samræmi við kröfur sem væru gerðar um hátterni opinberra starfsmenna og sem leiddu af grundvallarreglunni um að stjórnvöldum beri að svara skriflegum erindum sem til þeirra er beint skriflega nema erindi beri með sér að svars sé ekki vænst og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða. Að lokum gerði settur umboðsmaður athugasemdir við að skýringar Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns hefðu ekki verið í samræmi við þau sjónarmið sem lög um umboðsmann Alþingis byggðust á.

Settur umboðsmaður beindi því til Hafrannsóknastofnunar að erindi A yrði tekið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að hún færi þá með það í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að stofnunin hefði að öðru leyti þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu framvegis í huga í störfum sínum.