Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Húsnæðismál. Stjórnvaldsákvörðun. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 10899/2021)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem kæru hennar var vísað frá. Sú niðurstaða byggðist á því að ekki hefði verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Kæra A til nefndarinnar laut að því að Hafnarfjarðarkaupstaður hefði gert henni að flytja úr einu félagslegu húsnæði í annað í andstöðu við vilja hennar og réttindi. Auk þess hefði íbúðin sem hún hefði verið flutt í ekki verið í samræmi við þarfir hennar og fötlun. Athugun umboðsmanns Alþingis beindist að þeirri afstöðu úrskurðarnefndarinnar að ekki hefði verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Umboðsmaður benti á að þegar tekin væri afstaða til þess hvort afgreiðsla stjórnvalds teldist vera stjórnvaldsákvörðun yrði að líta til þess hvers eðlis hún væri og þar með þeir hagsmunir sem leyst væri úr. Við mat á eðli ákvörðunar gæti skipt máli hvort hún væri „lagalegs eðlis“, auk þess sem almennt bæri að líta á ákvörðun um hvort lögbundin þjónusta sé veitt til stjórnvaldsákvörðunar. Umboðsmaður fjallaði því næst um að úthlutun sveitarfélags á húsnæði á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga væri lögbundið verkefni og að kveðið væri á um rétt fatlaðs fólks til að velja sér búsetustað í lögum. Einhliða ákvörðun sveitarfélags sem byndi enda á rétt fatlaðs einstaklings til að dveljast í tilteknu húsnæði fæli, að öðru jöfnu, í sér verulegt inngrip í þennan rétt og gæti jafnframt haft þýðingu um stjórnskipulega verndaðan rétt hans til að stofna og halda heimili.

Umboðsmaður taldi ljóst af gögnum málsins að sveitarfélagið hefði átt frumkvæði að því að A flutti úr íbúðinni og fyrir lægi að hún hefði verið því mótfallin. Að því virtu taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að í reynd hefði verið tekin einhliða ákvörðun af hálfu sveitarfélagsins um að A skyldi flytja úr íbúðinni. Eins og atvikum væri háttað væri því ekki unnt að fallast á með úrskurðarnefndinni að flutningurinn hefði grundvallast á samkomulagi sem félli utan þess að vera stjórnvaldsákvörðun af þeirri ástæðu. Þá væri það ósamrýmanlegt þeim markmiðum sem stefnt væri að með lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, um að tryggja málskotsrétt notenda þjónustunnar, að fatlað fólk nyti ekki þess réttaröryggis að geta kært slíkar ákvarðanir. Það var því álit umboðsmanns að úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi því til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál A til meðferðar að nýju, bærist beiðni þess efnis frá henni, og leysa þá úr málinu í samræmi við álitið. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Þá tók umboðsmaður fram að hann teldi tilefni til að senda Hafnarfjarðarkaupstað afrit af álitinu. Hefði hann bæði í huga að tekið yrði til skoðunar hvort birting reglna sveitarfélagsins um úthlutun á almennu leiguhúsnæði væri í samræmi við lög og að framvegis yrði gætt reglna stjórnsýslulaga þegar meiriháttar ákvarðanir væru teknar um búsetu fatlaðs fólks.