Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. Örorkumat. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á.

(Mál nr. 10816/2020)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. 

Ekki varð annað ráðið en að mat á örorku A hefði farið fram samkvæmt lögum og reglum sem gilda um mat á örorku og að ákvörðun úrskurðarnefndarinnar hefði verið reist á læknisfræðilegum gögnum. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að gera athugasemd við þá ákvörðun enda væru takmarkanir á því að umboðsmaður gæti endurmetið sérfræðilegt mat af þessu tagi.

Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að sú framkvæmd Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála, að meta örorku með hliðsjón af notkun hjálpartækis, byggðist ekki á fullnægjandi grundvelli. Að lokum taldi umboðsmaður að hvorki rökstuðningur úrskurðarnefndarinnar né fyrirliggjandi gögn málsins gæfu tilefni til að gera athugasemdir við það mat Tryggingastofnunar og niðurstöðu nefndarinnar að ekki hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu í málinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti, dags. 3. júní 2021.