Lögreglu- og sakamál. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir. Rannsóknarreglan. Sakarkostnaður. Ákvörðun um þóknun verjenda. Lagaskil.

(Mál nr. 10521/2020)

Félagið A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði verið heimilt að miða þóknun tilnefnds verjanda við þær viðmiðunarreglur dómstólaráðs, nú dómstólasýslunnar, sem í gildi voru þegar vinna hans var innt af hendi, en ekki viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt reglum sem höfðu tekið gildi þegar reikningur var gefinn út vegna starfanna eða þá að unnt var að gefa hann út. Athugun umboðsmanns var tvíþætt. Annars vegar beindist hún að því hvort viðbrögð ráðuneytisins hefðu verið fullnægjandi með hliðsjón af yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki þess gagnvart lögreglunni. Hins vegar fjallaði umboðsmaður um þá efnislega niðurstöðu ráðuneytisins að heimilt hefði verið að miða við eldri viðmiðunarreglur við útgáfu reikninga.

Umboðsmaður benti á að það gæti komið í hlut ráðherra á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda að hafa afskipti af ýmsum málum í starfsemi einstakra lögreglustjóraembætta, m.a. eftir ábendingar frá borgurunum. Dómsmálaráðuneytið hefði þó ekki talið tilefni til að aðhafast vegna málsins fyrr en eftir fyrirspurnir umboðsmanns. Eftir að málið hefði verið tekið til meðferðar af hálfu ráðuneytisins yrði auk þess ekki séð að viðbrögð og rannsókn þess hefðu verið til þess fallin að upplýsa hvort verklag og framkvæmd lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna ákvarðana um þóknun tilnefnds verjanda hefði verið í samræmi við lög. Var það niðurstaða umboðsmanns að viðbrögð þess hefðu verið ófullnægjandi með hliðsjón af skyldum ráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda þess.

Þá fjallaði umboðsmaður um reglur um hlutverk og þóknun tilnefnds verjanda í sakamálum og verklag við greiðslu reikninga fyrir störf verjenda. Benti hann á að lögmaður A hefði með vinnuframlagi sínu sem tilnefndur verjandi eignast kröfu á hendur íslenska ríkinu. Í samræmi við meginreglur íslensks réttar um lagaskil færi um nánara efni kröfunnar og lögskipti kröfuhafa og skuldara að öðru jöfnu eftir gildandi reglum á hverjum tíma. Sú afstaða ráðuneytisins að lögreglustjóra hefði verið heimilt að miða þóknun verjandans við eldri viðmiðunarreglur hefði verið íþyngjandi fyrir lögmanninn sem kröfuhafa gagnvart íslenska ríkinu og slík niðurstaða yrði að byggjast á skýrri heimild í lögum. Með hliðsjón af atvikum málsins og lagagrundvelli var það niðurstaða umboðsmanns að dómsmálaráðuneytið hefði ekki fært fyrir því haldbær rök að heimilt hefði verið að lögum að miða verjandaþóknun vegna umræddra mála við viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt reglum sem giltu þegar verjendastörfin voru innt af hendi án þess að krafa A væri þá gjaldkræf. Í ljósi þess að A hefði byggt á að misbrestur væri á að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti um málalok kæmi það í hlut ráðuneytisins, kæmi málið aftur til meðferðar af þess hálfu, að taka afstöðu til hvaða þýðingu þær athugasemdir hefðu um gjaldkræfni krafna.

Beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka málið aftur til meðferðar kæmi fram beiðni þess efnis og leysa þá úr því i samræmi við álitið. Þá beindi hann því til ráðuneytisins að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta að þessu leyti gagnvart lögreglustjórum á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna. Í ljósi samræmingarhlutverks ríkislögreglustjóra í starfsemi lögreglunnar var embættinu sent afrit af álitinu til upplýsingar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 10. júní 2021.