Samgöngumál. Skaðabótaréttur. Endurkröfunefnd. Rökstuðningur.

(Mál nr. 10847/2020)

Kvartað var yfir ákvörðun endurkröfunefndar skv. 20. gr. laga nr. 30/2019, um ökutækjatryggingar. Þar var um að ræða nýja ákvörðun í enduruppteknu máli. Niðurstaða nefndarinnar byggðist á því að tjóni á bifreið hefði verið valdið af stórkostlegu gáleysi í skilningi umferðarlaga nr. 50/1987 og að ákvörðun um fjárhæð endurkröfu skyldi óhögguð standa. Í kvörtuninni var því haldið fram að gáleysismat endurkröfunefndar hefði ekki verið í samræmi við lög, þar sem reyndi á hvort gáleysi tjónvalds teldist stórkostlegt eða almennt, og að rannsókn nefndarinnar hefði verið ábótavant.

Með vísan til hlutverks endurkröfunefndar við að meta og ákvarða um gáleysisstig, og þeim kröfum sem gera verður til rökstuðnings slíkra matskenndra ákvarðana, benti umboðsmaður á að af bókun nefndarinnar yrði ekki ráðið á hvaða meginsjónarmiðum mat hennar byggðist eða hvaða atvik hefðu legið þar til grundvallar.  Rökstuðningur nefndarinnar hefði að þessu leyti ekki verið fyllilega í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Í þeim svörum sem nefndin veitti umboðsmanni vegna málsins hefði þó verið bætt úr þessu að ákveðnu marki. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að leggja til grundvallar að málið hefði ekki verið nægilega rannsakað af hálfu nefndarinnar. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að gæta framvegis betur að framangreindum atriðum. Þá taldi umboðsmaður að athugasemdir við gáleysismatið vörðuðu réttarágreining sem eðlilegt væri að dómstólar leystu úr enda kynni þar að reynast nauðsynlegt að afla frekari sönnunargagna og meta sönnunargildi þeirra.

Að lokum vakti umboðsmaður athygli á að netfang endurkröfunefndar vísaði til lögmannsstofu og kynni það að veita henni villandi yfirbragð sem stjórnsýslunefnd á ábyrgð hins opinbera. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að tryggja að störf hennar væru í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í bréfinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 9. ágúst 2021.