Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Ráðningar í opinber störf. Andmælaréttur. Álitsumleitan.

(Mál nr. 10964/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ráðningu í starf skólastjóra grunnskólans X. Í kvörtuninni voru gerðar athugasemdir við samanburð á umsækjendum í ráðningarferlinu og að ekki hefði verið gætt að andmælarétti. Þá voru gerðar athugasemdir við hvernig staðið var að öflun umsagna um A og þann sem ráðinn var.

Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort heildstæður samanburður hefði farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu með vísan til þeirra sjónarmiða sem lögð höfðu verið til grundvallar. Í því efni benti umboðsmaður á að ekki yrði annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í starfið hefði verið byggð á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda eftir yfirferð umsóknargagna og viðtöl þar sem sambærilegar spurningar hefðu verið lagðar fyrir umsækjendur. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa yrði stjórnvaldi við ráðningu í opinbert starf var það niðurstaða umboðsmanns að ekki væru efni til að gera athugasemdir við ákvörðun sveitarfélagsins um ráðningu í starfið.

Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það að A hefði ekki verið gefið færi á að andmæla umsögn um sig enda hefði legið fyrir í gögnum málsins að A hefði komið tilteknum andmælum á framfæri. Auk þess hefðu gögn málsins ekki borið með sér að þeim upplýsingum sem A hefði verið ósátt við hefði verið veitt vægi við mat og samanburð á A og þeim sem ráðinn var. Að lokum taldi umboðsmaður ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við það að óskað hefði verið eftir umsögn yfirmanns A við meðferð málsins enda væri stjórnvaldi almennt heimilt að leita eftir umsögn utanaðkomandi aðila sem þekktu til starfa viðkomandi umsækjanda til þess að upplýsa um ákveðin atriði varðandi starfshæfni. Væri í þessum efnum einnig höfð hliðsjón af því að A hefði veitt samþykki sitt fyrir öflun umsagnarinnar. Aðrar athugasemdir í tengslum við ráðningarferlið gáfu umboðsmanni ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 19. ágúst 2021.