Menntamál. Háskólar.

(Mál nr. 11214/2021)

Kvartað var yfir að umsókn um að hefja nám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefði verið synjað.

Ekki varð séð að málinu hefði verið skotið til áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema. Þar með var kæruleið ekki tæmd og því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. júlí sl. yfir því að umsókn yðar um að hefja nám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hafi verið synjað.

Um inntöku stúdenta er fjallað í 47. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands. Í 7. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að sviðsstjóri kennslusviðs taki ákvörðun um það hvort innritun í grunnnám skuli heimiluð, að fenginni umsögn hlutaðeigandi deildar. Þá segir að umsækjanda sé heimilt að kæra synjun sviðsstjóra um innritun til áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Að lokum kemur fram að leiðbeina skuli um kæruheimild þegar ákvörðun sviðsstjóra er tilkynnt.

Ástæða þess að athygli yðar er vakin á framangreindu er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið freistað þess að bera synjunina undir áfrýjunarnefndina eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek athygli á því að ef þér ákveðið að kæra synjunina á umsókn yðar til umræddrar nefndar getið þér leitað til mín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu hennar ef þér teljið yður þá enn beitta rangsleitni.