Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds. Lagaheimild. Lögskýring.

(Mál nr. 10996/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds. A var talinn hafa gerst brotlegur við umferðarlög með því að leggja bifreið sinni í göngugötu. A benti á að hann hefði lagt í almennt stæði á göngugötu sem honum væri heimilt sem handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Bílastæðasjóður byggði aftur á móti á að handhöfum umræddra korta væri aðeins heimilt að leggja í sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á göngugötum en ekki annarsstaðar. Athugun umboðsmanns laut að því hvort framangreind afstaða væri samrýmanleg lögum.

Umboðsmaður benti á að í umferðarlögum væri gengið út frá því að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu væri bönnuð. Aftur á móti væru gerðar undantekningar frá því, þ. á m. hvað varðaði umferð handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Af orðalagi þeirra lagaákvæða yrði ekki annað ráðið en að heimilt væri að leggja ökutækjum, sem féllu undir framangreinda undanþágu, í göngugötu en þá skyldi þeim lagt í merkt stæði. Yrði þá að leggja til grundvallar að þar væri um að ræða öll merkt stæði við göngugötu. Þá yrði einnig að líta til þess að í umferðarlögum væru mælt fyrir um að handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða hefði annars vegar heimild til að leggja í bifreiðastæði, sem væri ætlað fyrir fatlað fólk, og hins vegar í gjaldskyld stæði, án sérstakrar greiðslu. Hvergi væri vikið að því í lögunum að annað ætti við þegar lagt væri í göngugötur, og þá á þann hátt að heimildin næði aðeins til sérmerktra stæða. Það var niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að fallast á þann lagaskilning að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða gætu eingöngu lagt í sérmerkt stæði á göngugötum.

Þá benti umboðsmaður á að óumdeilt væri að A væri handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða. Hann hefði því heimild til að aka um göngugötu og leggja ökutæki sínu í merkt stæði. Af gögnum málsins væri ljóst að A hefði lagt ökutæki sínu í innskot á götunni sem afmarkað væri með málmbólum. Slíkar málmbólur væru tíðkanlegar við afmörkun bifreiðastæða. Þegar taka ætti afstöðu til þess hvort í tilviki A hafi verið um að ræða merkt stæði í skilningi umferðarlaga bæri að hafa í huga þá meginreglu að stjórnsýslan væri lögbundin og ákvarðanir stjórnvalda yrðu að vera í samræmi við lög. Eftir því sem ákvörðun teldist meira íþyngjandi fyrir borgarana væru gerðar meiri kröfur að þessu leyti. Var það niðurstaða umboðsmanns að það hefði ekki verið nægilega skýrt að áðurlýstum merkingum hefði ekki verið ætlað að fela í sér afmörkun á bifreiðarstæði með þeim réttaráhrifum að stjórnvaldinu hefði verið heimilt að beita A viðurlögum fyrir stöðubrot. Var það niðurstaða hans að ákvörðun sjóðsins um álagningu gjaldsins hefði ekki verið samrýmanleg lögum.

Umboðsmaður mæltist til þess að Bílastæðasjóður tæki mál A aftur til meðferðar kæmi fram beiðni þess efnis frá honum og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmi í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. september 2021.