Almannatryggingar. Endurhæfingarlífeyrir.

(Mál nr. 10808/2020)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála um að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að um að synja A um framlengingu endurhæfingarlífeyris.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá framkvæmd Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndarinnar að gerð væri krafa um að hlutlausir fagaðilar sem búi yfir nauðsynlegri heilbrigðismenntun og sérþekkingu annist gerð endurhæfingaráætlunar. Gera yrði ráð fyrir að fagaðilar byggju ekki einungis yfir þekkingu til að leggja mat á hvaða endurhæfing væri við hæfi með hliðsjón af þeim vanda sem við væri að etja í því skyni að ná fram starfshæfni umsækjanda heldur einnig að gera grein fyrir og lýsa henni þannig að bæði umsækjanda og Tryggingastofnun, við mat á umsókn, væri ljóst hvaða kröfur væru gerðar til þess hvernig endurhæfingin ætti að fara fram. Af þeim sökum gæti íþróttafræðingur ekki verið umsjónaraðili endurhæfingaráætlunar. Þá taldi umboðsmaður ekki heldur forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að umsækjandi einn og sér geti ekki sett fram og mótað efni endurhæfingaráætlunarinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti, dags. 19. október 2021.