Húsnæðismál. Almennar íbúðir. Skyldubundið mat stjórnvalda. Lögskýring.

(Mál nr. 11113/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfestar voru ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni A um stofnframlag vegna kaupa á tveimur íbúðum í tilteknu fjöleignarhúsi miðsvæðis í Reykjavík. Sú niðurstaða var einkum studd þeim rökum að íbúðirnar uppfylltu ekki lagaskilyrði um að vera „hagkvæmar“ þar sem fermetraverð þeirra væri hátt og íbúðirnar því dýrar í almennum samanburði. Athugun umboðsmanns laut að því hvort fullnægjandi grundvöllur hefði verið lagður að niðurstöðu nefndarinnar að lögum.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um almennar íbúðir skyldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun meta hverja umsókn um stofnframlag ríkisins með hliðsjón af því hvort það húsnæði sem ætti að byggja eða kaupa teldist hagkvæmt og uppfyllti þarfir íbúa. Af lögunum leiddi að skýra yrði skilyrðið um hagkvæmni almennra íbúða með hliðsjón af því meginmarkmiði laganna að unnt væri að leigja þeim þyrftu á því að halda viðeigandi íbúðir á viðráðanlegum kjörum.

Í samræmi við meginregluna um skyldubundið mat stjórnvalda yrði hagkvæmni almennra íbúða í skilningi laga um það efni ekki metin án þess að þau íbúðakaup sem um ræddi hverju sinni væru virt heildstætt með tilliti til annarra ákvæða laganna sem og þeirra stjórnvaldsfyrirmæla sem sett væru með stoð í þeim. Skipti þar miklu hvort unnt væri að ákveða leigufjárhæð almennra íbúða í samræmi við reglur laganna. Kaupverð íbúða réði þar ekki úrslitum þótt það hefði áhrif enda væri gert ráð fyrir að eigandi almennra íbúða hefði ákveðið svigrúm til að ákveða leigufjárhæð.

Umboðsmaður vísaði til þess að hvorki yrðið ráðið að hagkvæmni þeirra íbúða sem málið snerti hefði verið metin með tilliti til íbúðakaupanna heildstætt né þess hvort eiganda þeirra yrði fært að ákveða leigufjárhæð í samræmi við reglur laganna, heldur hefði verið lagt til grundvallar að þær væru ekki hagkvæmar þar sem fermetraverð þeirra væri hátt og þær því dýrar í almennum samanburði. Það var því niðurstaða umboðsmanns að mat á umsóknum A hefði ekki samræmst fyrirmælum laganna og úrskurður nefndarinnar ekki í samræmi við lög.

Það voru tilmæli umboðsmanns til nefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og hún leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt var því beint til nefndarinnar, svo og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, að taka framvegis mið af þessum sjónarmiðum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 1. nóvember 2021.