Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð. Umönnunargreiðslur. Leiðbeiningarskylda. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 10709/2020 og 10720/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir tveimur úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála. Með báðum úrskurðunum var beiðni um breytingu, til hækkunar, á gildandi umönnunarmati vegna barna hans synjað. Byggðist niðurstaða nefndarinnar einkum á því að þar sem ekki hefði legið fyrir einhverfugreining í tilviki barnanna hefði umönnun þeirra réttilega verið felld undir 4. flokk í hinu kærða umönnunarmati. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort úrskurðarnefndin hefði kannað með viðhlítandi hætti hvort Tryggingastofnun hefði gætt að leiðbeiningarskyldu sinni í málum barnanna.

Í málinu lá fyrir að A hafði óskað eftir að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar af hálfu Tryggingastofnunar, m.a. með vísan til þess að löng bið væri eftir greiningu hjá opinberri greiningarstofnun. Umboðsmaður benti á að af ákvæðum laga um almannatryggingar yrði dregin sú ályktun að gert væri ráð fyrir ríkari leiðbeiningarskyldu að frumkvæði Tryggingastofnunar en leidd væri af ákvæðum stjórnsýslulaga.  Við meðferð málsins hjá umboðsmanni hefði stofnunin upplýst að mögulegt væri að fá samþykkt tímabundið hærra umönnunarmat áður en athugun hjá opinberri greiningarstofnun lægi fyrir, t.d. þegar ítarlegri athuganir lægju fyrir hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Þá taldi úrskurðarnefndin að Tryggingastofnun hefði ekki borið að leiðbeina A um að leggja fram frekari gögn þar sem ekkert hefði bent til þess að frekari greiningar hefðu farið fram.

Niðurstaða umboðsmanns var að Tryggingastofnun hefði borið að leiðbeina A um að hann gæti lagt fram frekari gögn, og þá hvers konar gögn, til að tímabundið hærra mat gæti komið til raunhæfrar skoðunar á meðan beðið væri eftir endanlegri greiningu. Í því sambandi benti hann á að gera yrði ríkari kröfur til málsmeðferðar nefndarinnar sem kærustjórnvalds en lægra settra stjórnvalda. Þegar kærumál lyti að því hvort lægra sett stjórnvald hefði gætt að leiðbeiningarskyldu sinni yrði kærustjórnvaldið að afla fullnægjandi upplýsinga áður en ákvörðun væri tekin. Forsenda þess að slík rannsókn teldist fullnægjandi væri að úrskurðarnefndin hefði gengið úr skugga um að þær upplýsingar sem lægju til grundvallar ákvörðun lægra sett stjórnvalds væru réttar, bæði um málsmeðferð og efni máls.  Þrátt fyrir athugasemdir A hefði úrskurðarnefndin ekki leitast við að upplýsa um hvernig framkvæmd Tryggingastofnunar var háttað að þessu leyti og þá hvort A hefði verið leiðbeint með fullnægjandi hætti um möguleika sína til að sækja um tímabundið mat að því virtu. Var það álit umboðsmanns að nefndin hefði ekki aflað fullnægjandi upplýsinga áður en hún tók áðurgreind mál barna A til úrskurðar þannig að fullnægt væri rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefnd velferðarmála tæki mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis af hans hálfu, og hagaði þá málsmeðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir álitinu sem og í framtíðarstörfum sínum.

 

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 16. nóvember 2021.