Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Ráðningar í opinber störf. Hæfi.

(Mál nr. 10626/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðunum Landspítala, annars vegar um að leggja niður stjórnunarstarf sem hann gegndi og samtímis segja honum upp störfum, og hins vegar að ráða annan umsækjanda en hann í nýtt starf forstöðumanns sem hann sótti um. Taldi hann hvort tveggja hafa verið ólögmætt. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort ákvarðanirnar hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og hvort spítalinn hafi gætt nægilega vel að hæfisreglum stjórnsýslulaga í ráðningarmálinu.

Umboðsmaður gerði grein fyrir að í almennum stjórnunarheimildum forstöðumanns felist vald til þess að skipuleggja starfsemi og vinnufyrirkomulag, skilgreina starfslýsingar og ákveða hvernig störfum er fyrirkomið í skipuriti stofnunar. Þá beri hann ábyrgð á því að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Yfirlýst meginmarkmið þeirra skipulagsbreytinga sem hefðu legið að baki uppsögn A hefði verið að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins sem og hagræða í stjórnunarþætti spítalans. Taldi umboðsmaður að því yrði ekki annað ráðið en að málefnalegar og lögmætar ástæður hefðu legið til grundvallar skipulagsbreytingunum. Þá taldi umboðsmaður að fengnum skýringum spítalans heldur ekki efni til þess að gera athugsemdir við það mat spítalans að ekki hefði verið unnt að flytja A í nýtt starf forstöðumanns á spítalanum í stað þess að segja honum upp.

Vegna ráðningar í nýtt starf forstöðumanns tók umboðsmaður fram að hefði stjórnvald aflað fullnægjandi upplýsinga til að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðunin byggðist á og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hefði farið fram hefði verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að stjórnvald nyti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi væri hæfastur til að gegna starfinu. Með vísan til þessa og fyrirliggjandi upplýsinga um ráðningarferli við ráðningu í forstöðumannsstarf það er A sótti um taldi umboðsmaður að ekki yrði annað ráðið en að ákvörðun um ráðninguna hefðu verið byggð á heildstæðum samanburði umsækjenda á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem Landspítali kaus að byggja á. Þá hefðu þau sjónarmið verið í samræmi við auglýsingu um starfið.

Um mat á vanhæfi tiltekinna starfsmanna sem komu að ráðningu vísaði umboðsmaður til þess annars vegar að þáttur þess er var í fjölskyldutengslum við einn umsækjenda hefði verið það lítilfjörlegur ekki væru forsendur til að líta svo á að hann hefði í reynd tekið þátt í meðferð málsins. Hins vegar benti hann á að starfstengsl annarra við A yllu að jafnaði ekki vanhæfi samkvæmt hæfisreglum stjórnsýslulaga.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 22. nóvember 2021.