Sjávarútvegsmál. Úthlutun byggðakvóta. Meinbugir.

(Mál nr. 10724/2020)

B slf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að synja beiðni Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að skoðað yrði hvort unnt væri að veita félaginu undanþágu frá þeirri skyldu að veiða mótframlag eða henni yrði frestað fram á næsta fiskveiðiár. Beiðni sveitarfélagsins byggðist einkum á því að tafir vegna viðgerða á fiskiskipi B slf., sem mætti rekja til tafa á vöruflutningum vegna COVID-19, hefðu haft það í för með sér að skipi félagsins hefði ekki tekist að veiða mótframlag byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020. Synjun ráðuneytisins byggðist einkum á því að skylt væri samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða að veiða tiltekinn afla sem mótframlag sem úthlutað væri sem byggðakvóta. Ekki væru fordæmi fyrir því að heimilað hefði verið að víkja frá þessari skyldu. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort úrlausn ráðuneytisins og þær forsendur sem hún byggðist á hefði samræmst lögum.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt tilgreindu ákvæði laga um stjórn fiskveiða gæti ráðherra staðfest almennar reglur sem gildi í tilteknu byggðarlagi og víkja frá eða bætast við almenn skilyrði um byggðakvóta. Slíkar reglur væru almennar og giltu um öll skip innan viðkomandi byggðarlaga. Á hinn bóginn gæti ráðherra á grundvelli annars lagaákvæðis vikið frá skilyrðum vegna einstakra skipa ef sveitarstjórn legði til undanþágu með vísan til málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Það yrði því ekki séð að ráðuneytið hefði afgreitt beiðni Sveitarfélagsins Skagafjarðar á réttum forsendum með því að líta fyrirvaralaust svo á að ekki væri heimilað að víkja frá tilteknu skilyrði vegna fiskiskips B slf. Umboðsmaður taldi því að ráðuneytið hefði ekki farið með tillögu sveitarfélagsins vegna skipsins í samræmi við tilgreint ákvæði laga um stjórn fiskveiða eins og ákvæðið yrði skýrt með hliðsjón af almennum reglum stjórnsýsluréttar.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að metið yrði hvort unnt væri að rétta hlut B slf. og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Einnig mæltist hann til þess að ráðuneytið tæki til athugunar hvort gildandi reglur um úthlutun byggðakvóta fullnægðu þeim kröfum sem gerðar væru til skýrleika þeirra réttarreglna sem um ræddi og ljóst væri að byggðarlög og fyrirtæki hefðu hagsmuni af.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 21. desember 2021.