Opinberir starfsmenn. Skipun í embætti prests.

(Mál nr. 10969/2021, 10981/2021, 10982/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðunum biskups Íslands um skipanir í embætti prests í X-prestakalli, sóknarprests í Y-prestakalli og tvö prestsembætti í Z-prestakalli. Taldi A að með framangreindum ákvörðunum biskups hefði ítrekað verið gengið fram hjá hæfasta umsækjandanum og að málsmeðferðin hefði ekki verið í samræmi við lög. Að fenginni afstöðu kirkjuráðs þjóðkirkjunnar, samkvæmt ábendingu umboðsmanns til A þar um, tók hann kvörtunina til athugunar á þeim grundvelli að fyrir lægju fyrir endanlegar ákvarðanir sem ekki yrði skotið til kirkjuráðs.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagalegum grundvelli starfsreglna um val og veitingu prestsembætta og sérstökum ákvæðum reglnanna um störf matsnefnda og kjörnefnda sem þar var kveðið á um og giltu þegar skipanirnar áttu sér stað. Samkvæmt reglunum fór val á sóknarpresti fram með kosningu í kjörnefnd, sem kosin var á aðalsafnaðarfundi viðkomandi sóknar, enda væri ekki efnt til almennrar prestskosningar í sókninni. Skyldi kjörnefndin kjósa einn úr hópi þeirra umsækjenda sem matsnefnd hafði metið hæfasta til að gegna embætti en matsnefndinni bar að jafnaði að tiltaka fjóra hæfustu umsækjendurna.

Umboðsmaður benti á að reglur þjóðkirkjunnar gerðu ráð fyrir því að við val á sóknarpresti væri kjörnefnd ekki bundin við efnislega eða tölulega niðurstöðu matsnefndar um umsækjendur. Þvert á móti væri gert ráð fyrir því að kjörnefnd, kosin af sóknarbörnum, hefði úr einhverjum kostum að velja við val sitt án tillits til nánari niðurstöðu matsnefndar. Taldi umboðsmaður að í ljósi sérstaks eðlis prestsstarfsins og sjálfstæðis þjóðkirkjunnar, væri það ekki hans að leggja mat á þau almennu rök sem framangreint fyrirkomulag studdist við. Leggja yrði til grundvallar að kirkjunni hafi verið heimilt að kveða með þessum hætti á um val og skipun á sóknarpresti og láta þar með önnur sjónarmið en faglegt mat matsnefndar á því hvaða umsækjandi teldist hæfastur samkvæmt þarfagreiningu hafa þýðingu. Biskupi hefði þar af leiðandi borið að fylgja bindandi niðurstöðu kjörnefndar án tillits til efnislegrar eða tölulegrar niðurstöðu matsnefndar, sem A hafði vísað til, enda lægi nægilega fyrir að hlutaðeigandi umsækjandi uppfyllti almenn hæfisskilyrði og meðferð málsins hefði að öðru leyti verið samkvæmt lögum. Niðurstaða umboðsmanns var því að ekki væri ekki tilefni til að gera athugasemdir við að biskup hefði fylgt vali kjörnefndar við fyrrgreindar skipanir í embætti sóknarpresta. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um athugasemdir A sem lutu að aðkomu B við undirbúning að veitingu embættisins í X-prestakalli er B kom á fund kjörnefndar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 17. desember 2021.