A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir ákvörðun framhaldsskólans X um ráðningu aðstoðarskólameistara til afleysingar í eina önn. Byggðust kvartanirnar á því að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn, framkvæmd viðtala hefði verið ábótavant og ekki hefði verið viðhaft lögbundið samráð við skólanefnd. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort ákvörðunin hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum og fullnægjandi upplýsingum svo og hvernig samráði við skólanefnd hefði verið háttað.
Umboðsmaður taldi ekki annað séð en að sjónarmiðin sem skólinn hefði upplýst um að hefðu legið til grundvallar mati hans við ráðninguna hefðu verið málefnaleg og í efnislegu samræmi við áherslur í auglýsingu um starfið. Í málinu lægju ennfremur fyrir skráðar upplýsingar úr viðtölum. Við mat á því hvort umboðsmaður hefði forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða samanburð skólans á hæfni umsækjenda hefði hann m.a. í huga að þeir hefðu verið starfsmenn skólans. Því yrði að leggja til grundvallar að skólameistari og aðrir matsmenn hefðu af eigin raun þekkt til fyrri starfa A og B og þess umsækjanda sem var ráðinn. Enn fremur hefðu umsækjendur átt þess kost að koma að frekari upplýsingum um sig og hæfni sína, bæði í skriflegum umsóknum og í viðtölum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að líta öðruvísi á en að fullnægjandi upplýsingar um hæfni umsækjenda hefðu legið fyrir þegar ákvörðun var tekin um ráðninguna og hún byggst á heildstæðum samanburði umsækjenda á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.
Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga og reglna um hlutverk skólanefnda í framhaldsskólum og benti á að hlutverk þeirra væri m.a. að vera skólameistara til samráðs um starfsmannamál. Í svörum skólans og gögnum málsins hefði komið fram að skólanefnd hefði verið veittar upplýsingar um fyrirhugaðar ráðningar aðstoðarskólameistara á fundum, bæði fyrir og eftir ráðninguna. Sú tilhögun hefði verið í samræmi við fyrri framkvæmd að sögn skólans og fyrirliggjandi gögn. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að samráð skólameistara við skólanefnd vegna ráðningar aðstoðarskólameistara hefði ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem leiddi af ákvæðum laga um framhaldsskóla. Hvað sem því liði taldi umboðsmaður rétt að árétta sjónarmið um hlutverk skólanefnda í framhaldsskólum sem stjórnsýslunefnda. Í þeim efnum benti hann á mikilvægi þess að á vettvangi skólanefndar væri tekin ákvörðun um framkvæmd samráðsins almennt og að virtum rétti skólanefndarfólks til upplýsinga og aðkomu að einstökum málum. Þær ábendingar hrófluðu þó ekki við fyrrgreindri niðurstöðu um að samráð við skólanefnd í málinu hefði fullnægt lágmarkskröfum samkvæmt lögum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 16. desember 2021.