Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Mat á hæfni umsækjenda.

(Mál nr. 11259/2021)

A  leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skipun í embætti forstjóra stofnunarinnar X. Byggðist kvörtunin á því að ekki hefði verið staðið réttilega að mati á hæfni umsækjenda og sá sem skipun hlaut hefði ekki verið hæfasti umsækjandinn. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort ákvörðunin hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum svo og mati ráðherra á lokastigi ráðningarferlisins.

Umboðsmaður benti á að skipuð hefði verið þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd samkvæmt heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að loknu heildstæðu mati á umsóknum, niðurstöðum úr viðtölum og umsögnum hefði það verið niðurstaða hennar að fimm umsækjendur hefðu uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar voru en þrír þeirra, þar á meðal A, stæðu framar hinum með vísan til menntunar og reynslu, þekkingar á starfsemi stofnunarinnar, reynslu af stjórnun og rekstri ásamt skilningi á þeim áskorunum sem stjórnendur og stofnunin stæði frammi fyrir næstu árin. Ráðherra hafi í kjölfarið tekið viðtöl við þrjá efstu þar sem hann hafi leitast við að meta m.a. þá persónubundnu þætti sem kallað hafi verið eftir í auglýsingu og fá fram sýn umsækjanda á helstu viðfangsefni  stofnunarinnar.

Taldi umboðsmaður að sjónarmið sem lögð voru til grundvallar mati hæfnisnefndar svo og sjónarmið varðandi persónubundna þætti og mannauðsmál sem ráðherra tók sérstakt mið af hefðu verið málefnaleg og samræmst þeim kröfum sem fram komu í auglýsingu um embættið. Niðurstaða hans var að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að umrædd ákvörðun hefði verið byggð á heildstæðum samanburði umsækjenda á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem ákveðið hefði verið að leggja til grundvallar. Taldi hann sig því ekki hafa forsendur til að gera athugsemdir við meðferð málsins eða endanlegt mat ráðherra á því hver hefði talist hæfastur umsækjenda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 23. desember 2021.