Fæðingar- og foreldraorlof. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11507/2022)

Kvartað var yfir hvernig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru reiknaðar út þegar foreldrar flytja til Íslands.

Þar sem kvörtunin beindist einkum að þeim lagareglum sem gilda hér á landi um rétt viðkomandi til greiðslna úr sjóðnum og starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis voru ekki forsendur til að hann fjallaði um kvörtunina hvað það snerti. Þá benti hann á að ekki væri til að dreifa úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem æðra stjórnvalds í málinu og að ennfremur væri það ekki sitt hlutverka að svara almennum fyrirspurnum eða leita svara við þeim.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. janúar sl. yfir því hvernig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru reiknaðar út þegar foreldrar flytja til Íslands. Í kvörtuninni er þess sérstaklega getið að hún beinist að þeim reglum sem gilda um sjóðinn, auk þess sem ýmsum spurningum er beint til mín í erindi sem fylgdi kvörtuninni, þ.á m. hvort nokkuð sé unnt að gera til að tryggja yður hærri greiðslur úr sjóðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt a-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa Alþingis. Þá leiðir af ákvæðum 4. og 6. gr. laga nr. 85/1997 að umboðsmaður fjallar um úrlausnir eða aðrar athafnir stjórnvalda en svarar ekki almennum fyrirspurnum um tiltekin málefni eða réttarsvið.

Um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eru ákvæði í lögum nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, þ.á m. að hvaða marki verður tekið tillit til starfstímabila erlendis. Samkvæmt þessu og því sem fyrr greinir um kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að hún beinist einkum að þeim lagareglum sem gilda hér á landi um rétt yðar til greiðslna úr sjóðnum. Af þeim sökum fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að taka kvörtunina til frekari meðferðar, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, auk þess sem það fellur ekki að hlutverki umboðsmanns samkvæmt lögunum að leita svara við fyrirspurnum yðar.

Í 7. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunni að rísa á grundvelli laganna. Ástæða þess að athygli yðar er vakin á ákvæðinu er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er það meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar að æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í máli megi skjóta málinu til æðra stjórnvalds. Sé það afstaða yðar að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um rétt yðar til greiðslna úr sjóðinum samræmist ekki réttindum yðar getið þér freistað þess að skjóta ágreiningnum til nefndarinnar. Með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvaða afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta ákveðið þér að leita til nefndarinnar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og er athugun minni á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér ákveðið að skjóta málinu til úrskurðarnefndar velferðarmála getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis á ný að fengnum úrskurði nefndarinnar teljið þér þá ástæðu til þess.