Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11526/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf framkvæmdastjóra.

Samkvæmt samþykktum félagsins sem um ræddi og skráningu þess eru það almenn félagasamtök sem teljast til einkaréttarlegra aðila og því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 1. febrúar sl. yfir ráðningu í starf framkvæmdastjóra Eims.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Samkvæmt samþykktum félagsins og skráningu er um að ræða almenn félagasamtök sem teljast til einkaréttarlegra aðila. Þau atriði sem kvörtun yðar beinist að fela ekki í sér beitingu opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartöku á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.