Félög. Fyrirtækjaskrá. Skráning firmanafns. Rökstuðningur.

(Mál nr. 10675/2020)

Landssamband æskulýðsfélaga leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með úrskurðinum var m.a. staðfest ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að synja beiðni félagsins um skráningu tilkynningar um breytingu á nafni þess í Landssamband ungmennafélaga. Í úrskurði ráðuneytisins var byggt á því að breytingin væri til þess fallin að valda ruglingshættu milli félagsins og Ungmennafélags Íslands. Síðarnefnda félaginu væri falið tiltekið hlutverk samkvæmt íþróttalögum og gert væri ráð fyrir því að það væri landssamband ungmennafélaga á landinu. Kvörtunin byggðist einkum á því fyrirtækjaskrá hefði farið út fyrir heimildir sínar að lögum með synjuninni og að nöfnin „Landssamband ungmennafélaga“ og „Ungmennafélag Íslands“ væru nægilega aðgreind hvort frá öðru í skilningi laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um hlutverk fyrirtækjaskrár og skráningu firmaheita. Hann benti á að í lögum væri gert ráð fyrir því að hægt væri að fá samnefnt firma skráð svo framarlega sem glögglega væri greint á milli þess og eldra firmaheitis með viðauka eða öðrum hætti. Við mat á því hvort synja bæri um skráningu firmaheitis með vísan til laganna yrði fyrst og fremst að líta til firmaheitanna sjálfra og meta líkindi þeirra út frá heitunum sem slíkum. Hann benti jafnframt á að í ákvörðun fyrirtækjaskrár um skráningu firma fælist almennt ekki úrlausn stjórnvalds um lagalegan rétt hlutaðeigandi til að nota tiltekið heiti í atvinnuskyni.

Umboðsmaður benti á að heitin Landssamband ungmennafélaga og Ungmennafélag Íslands væru ekki þau sömu og að ekki yrði séð að þau, ein og sér, væru þess eðlis að ekki væri hægt að greina þau glöggt hvort frá öðru. Með vísan til lagaskilyrða fyrir skráningu firma og hlutverks fyrirtækjaskrár í því sambandi komst hann að þeirri niðurstöðu að úrskurður ráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá taldi hann óhjákvæmilegt að líta svo á að rökstuðningur ráðuneytisins hefði ekki verið fyllilega í samræmi við reglur stjórnsýslulaga þar um, m.a. þar sem fjallað hefði verið um fjölda lagaákvæða og sjónarmiða í úrskurðinum án þess að ætíð væri fyllilega skýrt hvaða þýðingu þau hefðu fyrir niðurstöðu málsins. 

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál Landssambands æskulýðsfélaga aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og að úr því yrði leyst í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt að ráðuneytið myndi framvegis taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. maí 2022.