A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir frávísun ríkissaksóknara á kæru hans vegna synjunar héraðssaksóknara um aðgang að gögnum máls. Niðurstaða ríkissaksóknara byggðist á því að kærufrestur hefði verið liðinn þegar kæran barst og skilyrði væru ekki uppfyllt til að taka hana til meðferðar að kærufresti liðnum. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort sú ákvörðun hefði verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður rakti ákvæði stjórnsýslulaga um synjun málsaðila um aðgang að gögnum máls og benti á að stjórnvaldi bæri samkvæmt lögunum að leiðbeina aðila um kæruheimild. Taldi umboðsmaður að ekki yrði fallist á skýringar ríkissaksóknara um að unnt hefði verið að skilja ákvörðun héraðssaksóknara þannig að leiðbeint hefði verið um kæruheimild vegna synjunar gagnabeiðni lögmanns A. Yrði því að leggja til grundvallar að kæruleiðbeiningar héraðssaksóknara hefðu verið í andstöðu við stjórnsýslulög. Umboðsmaður gerði grein fyrir því að í stjórnsýslulögum væri mælt fyrir um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli henni vísað frá nema afsakanlegt væri að hún hefði ekki borist fyrr. Með vísan til þeirrar heimildar og að virtum atvikum málsins taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að afsakanlegt hefði verið að kæra A hefði borist að liðnum kærufresti. Þá haggaði það ekki lögbundinni leiðbeiningarskyldu héraðssaksóknara að A hefði notið aðstoðar lögmanns.
Niðurstaða umboðsmanns var sú að ákvörðun ríkissaksóknara um að vísa kæru A frá hefði ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann þeim tilmælum til ríkissaksóknara að hann tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum. Jafnframt að embættið tæki framvegis mið af þeim atriðum sem fram kæmu í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 2. júní 2022.