Almannatryggingar. Örorkumat. Endurupptaka. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11308/2021, 11312/2021 & 11315/2021)

A, B og C leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir þremur úrskurðum úrskurðar­nefndar velferðarmála. Með úrskurðunum, sem voru nær samhljóða, staðfesti nefndin ákvarðanir Tryggingastofnunar um að synja beiðnum um að endurupptaka mat á örorku þeirra. Úrskurðir nefndarinnar byggðust á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga til að fallast á beiðnirnar. Um það var einkum vísað til þess að lengri tími en eitt ár hefði liðið frá umræddum örorkumötum þar til óskað hefði verið eftir endurupptöku og ekki væru fyrir hendi veigamiklar ástæður í skilningi ákvæðisins sem mæltu með því að endurupptaka þau. Athugun umboðsmanns laut að því hvort úrskurðarnefnd velferðarmála hefði lagt fullnægjandi mat á það hvort rétt væri að endurupptaka málin og þar með hvort fullnægjandi lagalegur grundvöllur hefði verið lagður að niðurstöðum nefndarinnar.

Í áliti umboðsmanns var rakið að A, B og C ættu það sammerkt að hafa sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en upphaflega verið synjað af hálfu Tryggingastofnunar þar sem örorka þeirra hefði verið metin minni en 75% en talin eiga rétt á örorkulífeyri síðar á grundvelli nýrra umsókna þeirra. Í framhaldi af því hefðu þau óskað eftir því að stofnunin endurskoðaði fyrri ákvarðanir þeirra þar sem mat á örorku hefði verið rangt miðað við þau gögn sem lágu fyrir, m.a. með hliðsjón af því hvernig örorka þeirra hefði síðar verið metin. Auk þess hefðu þau stutt beiðnir sínar að hluta við gögn sem ekki hefðu legið fyrir þegar upphaflegar ákvarðanir þeirra voru teknar. Umboðsmaður benti á að leggja yrði til grundvallar að beiðnir þeirra hefðu m.a. grundvallast á því að þau teldu sig eiga rétt á að stofnunin fjallaði á ný um mál þeirra með vísan til ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar um endurupptöku. Í úrskurðum nefndarinnar hefði hins vegar hvergi verið vikið að þessum reglum og því yrði ekki séð að nefndin hefði að þessu leyti lagt fullnægjandi mat á beiðnirnar. Úrskurðir nefndarinnar hefðu því ekki verið reistir á viðhlítandi lagagrundvelli að þessu leyti.

Umboðsmaður benti jafnframt á að úrskurðir nefndarinnar hefðu fyrst og fremst byggst á því að „veigamiklar ástæður“ í skilningi niðurlags 24. gr. stjórnsýslulaga mæltu ekki með því að endurupptaka málin. Umboðs­maður taldi að þau sjónarmið sem byggju að baki þessu ákvæði færu að hluta saman við mat á því hvort skilyrði væru uppfyllt til að fjalla á ný um mál á grundvelli ólögfestra reglna. Leggja yrði til grundvallar að almennt skipti mestu við mat á skilyrðum fyrir endurupptöku hvort sýnt hefði verið fram á að þörf væri á að fjalla aftur um viðkomandi mál, t.d. vegna þess að með nýjum upplýsingum eða röksemdum hefðu verið leiddar að því líkur að upphafleg ákvörðun hefði verið röng. Hvergi hefði verið vikið að þessum sjónarmiðum í úrskurðunum heldur hefði mat nefndarinnar takmarkast við að hugsanlegar kröfur þeirra væru að mestu leyti, eða að hluta, fyrndar og að málin hefðu ekki fordæmisgildi eða snertu mikilsverða hagsmuni A, B og C. Í því sambandi benti umboðsmaður þó á að þótt það kynni að leiða til synjunar við beiðni um endur­upptöku að hugsanlegar kröfu málsaðila væru að öllu leyti fyrndar samræmdist það almennt ekki sjónarmiðum um réttarvernd borgaranna að líta svo á að aðili hefði ekki hagsmuni af endurupptöku máls þegar hugsanleg krafa hans væri að hluta til fyrnd. Var það álit umboðsmanns að úrskurðir nefndarinnar hefðu ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefnd velferðarmála tæki mál A, B og C til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá þeim, og leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu sem og í framtíðarstörfum sínum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 8. júní 2022.