Menntamál. Háskólar. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11384/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem hafnaði öllum kröfum A, en þær lutu að ákvörðunum forseta Raunvísinda­deildar og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Með þeim var A annars vegar gefin einkunnin 0,0 fyrir lokapróf í X-námskeiði, réttur hans til að þreyta endurtökupróf felldur niður og honum gert að sitja námskeiðið aftur hygðist hann ljúka því. Hins vegar var A áminntur fyrir brot á reglum skólans. Málið átti upphaf sitt í því mati kennara námskeiðsins á prófúrlausn A að hann hefði notast við úrlausn frá tilgreindri vefsíðu í andstöðu við prófreglur. Áfrýjunarnefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hún væri hvorki bær né hefði sérfræðilega þekkingu til að endurmeta þá niðurstöðu Háskóla Íslands að A hefði svindlað á umræddu lokaprófi. Athugun umboðsmanns beindist einkum að þeirri afstöðu nefndarinnar.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagaákvæðum um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Benti hann á að samkvæmt lögum um háskóla endurmeti nefndin ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Umboðsmaður taldi að af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að það hefði verið mat kennara X-námskeiðs á prófúrlausn A að hann hefði notast við úrlausn frá tilgreindri vefsíðu í andstöðu við prófreglur. Þetta mat, sem álitsgjafi og deildarforseti hefðu tekið undir, byggðist á faglegri þekkingu umræddra aðila á tilteknu sviði og það hefði verið samofið mati kennarans á prófúrlausn A. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu afstöðu nefndarinnar að það félli utan hlutverks hennar, eins og það væri afmarkað í lögum, að leggja mat á þá niðurstöðu að A hefði við úrlausn á hinu umdeilda prófverkefni eftirritað lausn af tiltekinni vefsíðu og þannig svindlað á prófinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 10. júní 2022.