A leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd einkahlutafélags síns og kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem staðfest hafði verið ákvörðun Ferðamálastofu um að synja beiðni félagsins um að endurupptaka þá ákvörðun að gefa út ferðaskrifstofuleyfi til félagsins, auk þess sem ráðuneytið hafði fjallað um þá ákvörðun stofunnar að birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði á grundvelli þágildandi 27. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort skilyrði hefðu verið uppfyllt til að birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði í tengslum við uppgjör Ferðamálastofu á tryggingu sem félagið hafði reitt fram í tengslum við upphaflega útgáfu ferðaskrifstofuleyfisins.
Í álitinu fjallaði umboðsmaður um tryggingarskyldu og uppgjör tryggingar í kjölfar niðurfellingar ferðaskrifstofuleyfis og rakti í því samhengi ákvæði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og laga um Ferðamálastofu, eins og þau voru úr garði gerð þegar atvik máls áttu sér stað, auk ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Benti umboðsmaður á að óskaði leyfishafi sjálfur eftir niðurfellingu leyfis á grundvelli þágildandi 8. mgr. 8. gr. laga um Ferðamálastofu hefði það gefið stofnuninni tilefni til að nýta þær heimildir sem hún hefði til að kanna aðstæður hans nánar og leggja mat á hvort staðfesta bæri niðurfellingu. Birting áskorunar í Lögbirtingablaði hefði aðeins verið heimil að uppfylltum skilyrðum þágildandi 27. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, þ.e. ef fyrir hefði legið að komið hefði til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots leyfishafa. Þar sem ekkert hafði legið fyrir um rekstrarstöðvun eða gjaldþrot hjá félagi A hefðu skilyrði fyrir birtingu áskorunar um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði ekki verið uppfyllt í málinu.
Það var niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun Ferðamálastofu, að því er snerti uppgjör á tryggingu félagsins, hefði ekki verið í samræmi við lög. Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í máli félagsins hefði því að þessu leyti ekki samræmst lögum. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál félagsins til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 10. júní 2022.