Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Innheimtukostnaður. Lagaheimild. Lögskýring.

(Mál nr. 10749/2020)

 

A ehf. leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að ráðherra viðskiptamála hefði ekki endurskoðað hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar samkvæmt reglugerð nr. 37/2009, um hámarksfjárhæð innheimtu-kostnaðar o.fl., frá árinu 2010. Byggðist kvörtunin á því að ráðherra væri að eigin frumkvæði skylt að endurskoða fjárhæðirnar reglulega.

Umboðsmaður tók fram að markmið innheimtulaga nr. 95/2008 væri að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, þ.á m. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem heimilt er að krefja skuldara um. Í samræmi við það væri í 12. gr. laganna mælt fyrir um að ráðherra geti ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, en jafnframt að fjárhæðin skyldi taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist.

Ráðherra væri skylt að taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist, nýtti hann þá heimild sem honum er falin til að ákvæða hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar. Að því leyti væri ráðherra þó falið mat um það hvaða kostnaður væri nauðsynlegur og hóflegur. Af lögskýringargögnum yrði jafnframt ráðið að þær hámarksfjárhæðir, sem kynnu að verða ákveðnar með reglugerð, gætu verið lægri en þær sem kröfuhafi og innheimtuaðili semdu um sín á milli. Var það niðurstaða umboðsmanns að það væri ekki andstætt fyrirmælum innheimtulaga þótt þær hámarksfjárhæðir sem mælt væri fyrir um í reglugerðinni séu nokkuð lægri en raunverulegur kostnaður innheimtuaðila, sem kröfuhafi eftir atvikum samþykkir að greiða að hluta. Loks kom fram að við mat á því hvort ráðherra væri skylt að endurskoða hámarksfjárhæðir reglugerðarinnar væri óhjákvæmilegt að líta til þess að í 12. gr. innheimtulaga væri ekki kveðið á um slíka skyldu berum orðum, ólíkt því sem gert er í ýmsum öðrum lögum með einum eða öðrum hætti. Þótt athafnir ráðherra í þessu sambandi verði að byggjast á viðhlítandi upplýsingaöflun og málefnalegum sjónarmiðum, þannig að efni reglugerðarinnar samræmist ákvæðum 12. gr. innheimtulaga miðað við aðstæður á hverjum tíma, væru ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi verið skylt að lögum að endurskoða hámarksfjárhæðirnar.