Opinberir starfsmenn. Hópuppsagnir. Hugtakið „starfsmaður“. Lögskýring. EES-samningurinn.

(Mál nr. 11320/2021)

B, C og D leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir að þeim hefði verið sagt upp störfum hjá Sjúkratryggingum Íslands. Byggðist kvörtunin m.a. á því að vegna þess fjölda sem hefði verið sagt upp störfum samtímis hefði stofnuninni verið skylt að fylgja ákvæðum laga um hópuppsagnir. Afmarkaði umboðsmaður umfjöllun sína við þann þátt málsins.

Umboðsmaður fjallaði um gildissvið laga um hópuppsagnir og að samkvæmt því tækju þau bæði til opinberra stofnana og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði. Lögin tækju þar með til sjúkratrygginga svo fremi að fjöldi þeirra starfsmanna sem sagt var upp hefði verið a.m.k. 10% af fjölda þeirra sem væru venjulega í vinnu hjá stofnuninni. Í skýringum sjúkratrygginga til umboðsmanns kom fram að stofnunin hafði talið fimm stjórnarmenn, skipaða af ráðherra, til heildarfjölda starfsmanna hennar og þar með hefðu þeir 14 sem sagt var upp ekki náð því að vera 10% starfsmanna, sem stofnunin taldi vera 143.  

Umboðsmaður gerði grein fyrir að við mat á því hvort stjórnarmennirnir teldust vera starfsmenn stofnunarinnar í skilningi laga um hópuppsagnir yrði að líta til þess hvernig hugtakið starfsmaður væri afmarkað í lögunum. Lögin hefðu verið sett til innleiðingar á ákveðinni tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins og yrði að skýra þau til samræmis við hana. Þar hefði hugtakið „starfsmaður“ sjálfstæða og samræmda merkingu sem einkenndist af því að starfsmaður innti af hendi vinnu um skeið undir stjórn einhvers innan fyrirtækisins fyrir þóknun. Hins vegar yrði ráðið af lögum um sjúkratryggingar að stjórnarmönnum væri í umboði ráðherra falið að hafa eftirlit með skipulagi og starfsemi stofnunarinnar sem að öðru leyti lyti stjórn forstjóra. Stjórnarmenn væru skipaðir af ráðherra til ákveðins tíma og þar af leiðandi óháðir stjórnunarvaldi forstjóra. Þar af leiðandi væri ekki unnt að líta svo á að þeir lytu stjórn nokkurs innan stofnunarinnar eða að eðli stöðu þeirra gagnvart stofnuninni væri með þeim hætti að þeir teldust starfsmenn hennar í skilningi laga um hópuppsagnir.

Niðurstaða umboðsmanns var því sú að Sjúkratryggingar Íslands hefðu ofmetið fjölda starfsmanna um a.m.k. fimm og af þeim sökum hefði stofnuninni borið að fara að ákvæðum laga um hópuppsagnir í aðdraganda umræddra uppsagna. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til stofnunarinnar að leita leiða til að rétta hlut B, C og D og gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 24. júní 2022.