Gjafsókn. Lagaskilyrði fyrir gjafsókn. Lagaheimild.

(Mál nr. 11652/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir frávísun dómsmálaráðuneytisins á umsókn hennar um gjafsókn. Ákvörðun ráðuneytisins byggðist á því að ekki hefði verið orðið við beiðni þess um að nánar tilteknar fjárhagsupplýsingar um maka A yrðu afhentar, en þær væru á meðal þeirra upplýsinga sem fylgja ættu umsókn um gjafsókn samkvæmt reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar. Kvörtunin laut einkum að því að ákvæði reglugerðarinnar, er mæltu fyrir um að líta skyldi til fjárhagsstöðu maka umsækjanda við mat á fjárhag hins síðarnefnda, skorti lagastoð. Þá laut kvörtunin að þeirri ákvörðun ráðuneytisins að vísa umsókn A frá án þess að tekin væri afstaða til allra þeirra gjafsóknarheimilda sem hún hefði byggst á.

Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt lögum um meðferð einkamála skyldu gögn fylgja umsókn um gjafsókn eftir þörfum. Af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að umsókn A hefði m.a. verið byggð á gjafsóknarheimild sem væri ótengd fjárhagslegri stöðu umsækjanda. Hefði dómsmálaráðuneytinu því borið að taka efnislega afstöðu til þess þáttar umsóknarinnar Það var því niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun ráðuneytisins um að vísa umsókn A frá í heild sinni hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður fjallaði einnig um heimildir ráðuneytisins og gjafsóknarnefndar samkvæmt reglugerð til að líta til fjárhagsstöðu maka umsækjanda við mat á því hvort fjárhag umsækjanda væri þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í dómsmáli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Það var álit umboðsmanns að þegar höfð væri í huga forsaga þeirra ákvæða laga um meðferð einkamála sem á reyndi, þau rök sem gjafsóknarheimildin byggðist á, svo og nánar tilteknar mannréttindareglur, ættu ákvæði reglugerðarinnar sér nægilega stoð í lögum.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál A upp að nýju, kæmi fram ósk frá henni um það, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann jafnframt þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hefði umrædd sjónarmið eftirleiðis í huga í störfum sínum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 31. ágúst 2022.