Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Rökstuðningur

(Mál nr. 11488/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem staðfest var ákvörðun Herjólfs ohf. um að synja beiðni hans um aðgang að ráðningarsamningi yfirskipstjóra félagsins. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort úrskurður nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að líkt og fram kæmi í úrskurði nefndarinnar væri réttur til upplýsinga um málefni starfsmanna lögaðila á borð við Herjólf ohf. þrengri en rétturinn til upplýsinga um opinbera starfsmenn. Samkvæmt upplýsingalögum ætti almenningur þó m.a. rétt á upplýsingum um launakjör æðstu stjórnenda þeirra.

Að virtum lagagrundvelli málsins og skýringum úrskurðarnefndarinnar taldi umboðsmaður ekki efni til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að yfirskipstjóri Herjólfs ohf. teldist ekki til æðstu stjórnenda félagsins og þar með niðurstöðu hennar um að staðfesta synjun þess á beiðni A um aðgang að umræddum ráðningarsamningi. Að mati umboðsmanns hefði verið í betra samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga ef í úrskurðinum hefði verið tekin skýrari afstaða til þess hvort yfirskipstjórinn teldist til æðstu stjórnenda Herjólfs ohf. en sá annmarki gaf ekki tilefni til þess að hann beindi tilmælum til nefndarinnar um úrbætur.

 

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 6. september 2022.