Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Stjórnsýslueftirlit. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 11504/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefði ekki orðið við beiðni hennar um aðgang að erindi og fylgigögnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi nefndinni. Kvörtunin beindist einnig að því að ekki hefði verið tekin fullnægjandi afstaða til beiðninnar eða gerð viðhlítandi grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli hefði verið leyst úr henni. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort sú efnislega afstaða nefndarinnar, að nefndin hefði ekki verið bær til að taka afstöðu til beiðninnar, hefði verið í samræmi við lög. 

Umboðsmaður taldi að ekki yrði með skýrum hætti ráðið á hvaða grundvelli nefndin leysti úr beiðni A að því leyti sem hún taldi sig ekki vera réttan aðila til að taka afstöðu til hennar. Þannig var sú afstaða ekki rökstudd nánar nema með vísan til vinnureglu sem nefndin hafði sjálf sett sér og varð ekki séð að ætti sér lagastoð. Umboðsmaður tók fram að ákvörðun um að veita aðgang að gögnum í stjórnsýslunni heyrði almennt undir það stjórnvald sem væri bært til að leysa úr stjórnsýslumáli og hefði umráð skjals. Að því leyti sem beiðni félli undir ákvæði upplýsingalaga leiddi af þeim að þegar farið væri fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefði verið stjórnvaldsákvörðun skyldi beiðni beint til þess sem tekið hefði eða myndi taka ávörðun í málinu. Að öðrum kosti skyldi beiðni beint til þess aðila sem hefði gögnin í vörslu sinni. Umboðsmaður taldi ljóst að beiðni A hefði verið réttilega beint til nefndarinnar og hún hefði verið til þess bært stjórnvald að taka ákvörðun um rétt A til aðgangs. Þar sem nefndin tók ekki efnislega afstöðu til beiðninnar var það álit umboðsmanns að synjun hennar við beiðninni hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að nefndin tæki beiðni A til meðferðar að nýju, óskaði hún þess, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 8. september 2022.